Færsluflokkur: Bloggar
22.6.2010 | 16:33
Vindasamt ......
Já ég veit að þið eruð farin að sakna þess að sjá ekkert frá mér. En ég bara ekki með internet tengingu þar sem ég bý í augnablikinu. Svo ég verð að fara á WIFi bari til að setjast við netið. Og það kostar hvítvínsglas/glös...... HIC!!
En sem sagt nú er ég komin til Tarifa á Spáni. Og er bara nokkuð ánægð með það. Hér er sól og þokkalega hlýtt.
En sem sagt. Á föstudaginn síðasta átti ég aftur svona þriggja landa dag. Byrjaði daginní Svíþjóð. Flaug svo yfir til London þar sem ég ætlaði að hitta 4 vini, þau Guðbjörgu, Guðmund, Sigrúnu og Sigurbjörgu. Ég var komin til London klukkan hálfníu að staðartíma. Þau áttu að koma klukkan hálftólf og vélin til Malaga átti að fara rúmlega fjögur.
Ég er í besta falli frekar lítið gefin fyrir að bíða. Svo ég tók bara underground til Oxford Circus. Þið vitið. Þar sem stora H&M búðin er........ En ég vissi vel að ég hefði ekkert að gera þar inn annað en að skoða. Nóg var dótið í töskunni minni, Neibb.... Svo ég labbaði áfram Oxfford strætið í leit að einni búð. Mágkona mín og bróðir geta kannski giskað á hverja..... Hún heitir Thornton. Og nei. Hún selur reyndar ekki skó:) Nei. Hún selur besta súkkulaði sem ég þekki. Og túrinn inn í borgina var vel þess virði að geta keypt sér Thornton mola
Þegar ég kom út á flugvöll leitaði ég uppi vinina. Við þurftum aðeins að bíða eftir að fá að bóka inn farangurinn. B.A. sá enga ástæðu til að leyfa okkur að sitja saman. Okkur var vel dreift út um alla flugvél og ég fékk að sjálfsögðu sætið aftast í horninu. Ef ég hefði verið aftar hefði ég setið á klósettinu!!
Í Malaga beið svo eftir okkur bílstjóri frá skólanum. Og þá fyrst byrjaði ævintýrið. Fyrst rataði hann ekkert um flugvöllinn (það var hægt að fyrirgefa það þar sem mikið er búið að byggja við völlinn frá í fyrra). Loks fann hann út hvert hann átti að fara. Þá var að borga fyrir stæðið. Og þá uppgötvaði ég að maðurinn gat ekki séð leiðbeiningarnar á skjánum. Ég vissi ekki hvort hann var lesblindur eða bara svona lágvaxinn að hann sæi ekki svona hátt eða hvað var. En svo tókst að borga. Þá var bara eftir að finna bílinn. Hann gat ómögulega munað hvar bíllinn var nema bílastæðið var eitthvað D...... Ómægod..... Eftir labb og leit fannst loks bíllinn. 7 manna bíll. Nema ekkert farangursrými. Hverjum dettur í hug að sækja 5 manns út á flugvöll og gera ekki ráð fyrir farangri?? Og trúið mér. Það var nóg af farangri. Þau hin voru hvert um sig með tvær töskur. Jæja. Ok. Þá varð að leysa það mál. Hvernig?? Jú með því að binda þrjár þeirra upp á þaki. Eitthvað sem viðkomandi bílstjori var greinilega ekkert of vanur að gera. Þvílíkan tíma það tók. En loks tókst okkur að keyra af stað. Til að komast út af flugvellinum og beint á næsta pissustopp!!
Húff... var ég orðin þreytt. Hafði farið á fætur klukkan 4 um morguninn og klukkan orðin tíu um kvöld. En ævintýrum dagsins var ekki lokið. Ónei! Fyrst munaði ekki nema hársbreidd að hann keyrði beint á staura sem vru þarna til að afmarka beygju.. Þá var okkur eiginlega hætt að lítast á blikuna. En hann keyrði svo frekar rólega ...... svona allavega fyrst um sinn. En.... svo var farið að gefa í. Klukkan orðin tólf og honum lá greinilega eitthvað á. Úti var frekar hvasst og það reif talsvert í bílinn. Hann lét það ekkert stoppa sig og var kominn á 130 km hraða þegar... já. Hver sá þetta fyrir? Taska reif sig lausa og fauk út á miðja hraðbraut. Bíllinn á eftir okkur rétt náði að smjúgasér framhjá. Gosh!! Og getið hver átti töskuna?? Jamm. Þetta var mín taska. Öll orðin rifin og tætt. Nú vorum við búin að fá nóg. Við heimtuðum að fá allar töskur inn í bílinn og sátum undir þeim. Allt frekar en að horfa á eftir dýrmætum skóm og nærfötum dreyft um hraðbrautir Andalúsíu. Jæja. Ok af stað aftur. En hann þurfti samt að stoppa á einum stað. Til að hringja. .Upp með farsímann. Og það var þá sem við uppgötvuðum hvað var að. Maðurinn var svo nærsýnn að hann var næstum blindur.....
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
15.6.2010 | 20:24
Sjónvarpsefni aldarinnar
Ég verð að viðurkenna að svolítð er ég orðin þreytt á efnisvali sænsku sjónvarpsstöðvanna. Efnið sem þeim dettur í hug að senda út er oft hreint út frekar hallærislegt. Þessa vikuna hefur brúðkaups-undirbúningur tröllriðið allar sjónvarpsstöðvar.
Og þar er virkilega verið að nýta sér konunglegt brúðkaup til hins ýtrasta. Á hverju kvöldi er endursýnt eitt konunglegt brúðkaup. Í gær var það Hákon krónsprins Noregs og í kvöld var það systir hans. Hvað verður endursýnt á morgun veit ég ekki, en giska á annan hvorn danaprinsinn.
Svo er verið að skoða brúðartertur, brúðarkjóla, brúðkaupsþetta og brúðkaupshitt. Og svo ætla nokkuð mörg pör að gifta sig líka þennan sama laugardag og þau eru boðuð til viðtöls.
Hins vegar fer vinningurinn sem hallærislegasta sjónvarpsefni ever til þáttar sem heitir Ullared.
Afhverju? Jú Ullared er stór (mjög stór) stórmarkaður sem selur allt. Þar eru stundum kílómetra langar biðraðir eftir að komast inn. Enda allt til sölu þarna. Fyrir utan er líka ágætis tjaldstæði fyrir fólk sem kemur að versla. Og jamm. Sjónvarpsþátturinn er um fólk sem kemur i Ullevi. Fylgst með ungu pari sem er að fara að gifta sig. Og með fjölskyldu sem er í tvær vikur á tjaldstæðinu. Mamman fer með börnin að versla á meðan karlinn bíður á tjaldstæðinu og þambar björ.
Ekki það að verslunin sé slæm. Enda vel sótt og vel þekkt meðal svía. En að búa til sjónvarpsþátt um verslunina. Migod!!
Ég held að ég hætti að kvarta undan efnisval hjá RUV. Það verður aldrei verra en þetta
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
14.6.2010 | 18:14
Þriggja landa helgi
Það var mikið að gera þessa helgina. Byrjaði strax á föstudaginn með að við fengum heimsókn frá Íslandi.
Hins vegar voru það laugardagurinn og sunnudagurinn sem voru viðburðarríkir.
Við vöknuðum snemma á laugardeginum til að aka suður til Kaupmannahafnar þar sem okkur var boðið í kvöldmat. Það var svo sem ekkert skemmtilegt akstursveður. Þvílíkar dembur að það hálfa var mikið meira en nóg. Og talsverðar tafir við brúna af því að það átti að fara fram s.k. Brúarhlaup seinna um daginn.
En til Danmerkur komumst við. Nánar tiltekið inná Brönbystrand. Þar var vel tekið á móti okkur og stjanað við okkur á allan máta. Meira að segja farið með okkur inn á Strik svona til að fá ekta Kaupmannahafnar tilfinningu. Ég er alltaf með svona heima tilfinningu þarna.
Sunnudagurinn byrjaði svo á að við keyrðum eins og leið lá til Rödbyhavn. Þaðan var tekin ferja yfir til Putthafen í Þýskalandi. Þegar þangað var komið var farið að versla nauðsynjavörur. Það var gert um borð í 6 hæða skipi. Eins gott að koma ekki þangað ef þér hættir til að drekka of mikið eða ert veik/ur fyrir áfengi.
Svo var farið sömu leið til baka.
Og áfram til Malmö. Þar byrjaði svo fjörið
Tónleikar með KISS. Þvílíkt ævintýri. Þvílíkt show. Hard rock í sinni sterkustu mynd. Og hver kannast ekki við hvítu andlitin?
En vissuð þið að bassaleikarinn Gene Simmons er prófessor í bókmenntasögu við Harward-háskólann?
Talandi um klofinn persónuleika...... En ótrúlega hress prófessor og orðinn 64 ára......
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
10.6.2010 | 10:29
Polkagrísir
Hvað er nú það eiginlega?? Orðið polka þekkið þið nú! Bæði sem dans og svo líka sem "polka dot bikini"
Polkagris er sænskt nammi. Brjóstsykur sem upprunalega var það sem við heima köllum bizmark brjóstsykur. Þetta sælgæti er búið til í litlum bæ sem heitir Gränne. Þar fer öll "löggilt" framleiðsla fram. Og þar var ég í gær.
Við vöknuðum sem sagt eldsnemma í gærmorgun og keyrðum fyrst alla leið til Norrköping. Erindið var að taka myndir af einni frægustu hestakonu Svía,ásamt Scania-hús/hestafluttninga-bílnum hennar og öllum H&M merkingunum á henni og bílnum.
Leiðin var mjög falleg en hins vegar var veðrið ekkert alveg til fyrirmyndar og þess vegna vorum við ekkert að skoða Norrköping of mikið. Keyrðum bara beint aftur til Gränne.
Þar fékk ég að sjá hvernig polkagris er búinn til alveg frá því að setja hráefni í pott þar til búið var að rúlla því í pappír. Og svo fékk ég að smakka framleiðsluna. Og í restina gat ég að sjálfsögðu keypt eins og mig lysti af polkagris. Allt frá hefðbundnum hvítum með rauðum röndum yfir í fjólu og salt bragð.......hhmmm. Meira að segja var til Irish wisky bragð.
Gränne bærinn sjálfur er lítill og kósí bær með 15 polkagris framleiðslum. Alls staðar er fullt af fólki að sjá hvernig þetta er gert. Síðan er náttúrulega allt fullt af hliðar fyrirtækjum eins og minjagripaverslunum, veitingahúsum og svoleiðis. Þessi staðum lifnar við um leið og fer að sumra. Veitingahúsið sem við settumst inn á selur að meðaltali yfir 400 lunsh-a yfir sumarið en dettur niður í milli 10 og 20 yfir háveturinn.
Bærinn liggur við Vätteren sem er næst stærsta vatn Svíþjóðar eða um 170 km á lengdina. Allt umhverfis vatnið eru bæir í fallegu umhverfi. Reynar er mikið af fallegu umhverfi og fallegri náttúru í Svíþjóð.
Ein ferðaleið sem ég sé fyrir mér að væri gaman að fara er að sigla upp eftir Gautelfi með bát. Koma með Norrænu á hjólinu til Danmerkur. Hjóla til Gautaborgar. Leigja sæmilegan bát sem ber fáein hjól (svona ferð krefst ferðafélaga) og sigla svo upp til Stokkhólms. Stoppa reglulega til að hjóla um og skoða. Gista í bátnum. Svo þegar maður er kominn til Stokkhólms tekur maður ferju á einhvern skemmtilegan stað á meginlandinu og hjólar tilbaka í rólegheitunum gegnum Þýskaland og aftur til Danmerkur. Þetta er næsta draumaferð Hver vill með??
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
8.6.2010 | 19:17
Mótorhjólamennska og fleira
Bara láta ykkur hjólafólk á Íslandi vita að hjólamennska er f....... dýr hér í Svíþjóð. Hjálmar eru rándýrir, föt eru líka rándýr og úrvalið bara lélegt. En það má fá góðar töskur, bæði sissybar töskur og tanktöskur fyrir 5 - 8000 krónur. Eina sem var á góðu verði.
Hjólin eru líka dýr. Ég fann hjól eins og mitt, álíka mikið keyrt en tveimur árum yngra. Það kostar tvöfalda þá upphæð sem ég borgaði fyrir mitt. Áts!!
Tvennt finnst mér slæmt: 1. Þeir nota lítið af hjálmum með opnanlegum kjálka. Eru hins vegar mjög mikið með heila hjálma. 2. Og hjálmar í minnstu stærðunum eru yfirleitt ekki seldir í dýrustu útgáfunum afþví þeir eru yfirleitt "bara fyrir" konur og þær eru jú "oftast bara farþegar"... Ojjojjojj.
Annars er það fullt sólarhring prógram að vera hér í heimsókn.
Alltaf eitthvað um að vera. Í dag fórum við út á bryggju að skoða Austur Indía farið sem er gullfalleg seglskúta sem er byggð nákvæmlega eins og gömlu seglskúturnar sem sigldu til Indíu frá Svíþjóð. Það var allt fullt af fólki vegna þess að skútan var að sigla af stað til Stokkhólms. Þeir voru líka búnir að lofa fallbyssu skotum við brottför. Og stóðu við það. Skutu 10 skotum. Og hávaðinn svo mikill að við óttuðumst um rúður í húsunum í nágrenninu.
Svo vildi vel til að alveg í næsta nágrenni við bryggjuna er mikill sýningarsalur þar sem nú er í gangi mikil farandsýning sem heitir "And there were light". Þarna eru m.a. sýndar myndir eftir Da Vinci. Ein þeirra er "La Bella Prinsipia". Ein allra dýrmætasta mynd sem til er.
Þetta er mjög skemmtileg sýning. Verst að hún kemur ekki til Íslands. En hún er í hálft ár hér í Gautaborg og fer svo áframum heiminn, m.a. til Þýskalands, Tokíó, London og á fleiri staði.
Á morgun á svo að fara eldsnemma til Norrköping og eitthvað fleira. Og skoða í leiðinni fleiri M.C-búðir......
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
4.6.2010 | 22:18
Af prinsum og nýstúdentum
Dagarnir líða hratt hér í Svíaríki. Veðrið til fyrirmyndar, alla vega hér í Lerum, og mikið um að vera. Í dag fórum við að horfa á STCC sem er e.k. kappakstur á sérútbúnum venjulegum bílum......(ef þið skiljið hvað ég á við...). Kappaksturinn fór fram á Bananpiren sem er inn við kanalinn í miðri Gautaborg. Við stoppuðum reyndar stutt því við vorum ekki beint á sjálfu svæðinu. Langaði bara að sjá staðinn og aðeins horfa á bílana. Svo vorum við að vona að við kæmum auga á prinsinn hann Carl Philip.
Mikið geta nú svíar annars gert grín að aumingja prinsinum. Prinsinn er nefnilega að keppa á STCC á fína porche-inum sínum. Venjan er að merkja bílana með einhverju sem auðkennir ökumanninn. Upp komu brandarar um að bíll prinsins skyldi merktur með CP. Viðeigandi kanski afþví hann heitir jú Carl Philip. En CP þýðir líka "Cerebral Palsy" og skammstöfunin er oft notuð í Svíþjóð um fólk sem þykir ekki hafa of mikið milli eyrnanna.
Annars á prinsinn ekki sjö dagana sæla núna. Þó hann sé komin með nýja og fallega kærustu upp á arminn. Eða kannski einmitt afþví að hann er komin með nýja fallega kærustu. Nýja kærastan fellur nefnilega ekki í kramið hjá kóngi föður hans. Honum mislíkar herfilega við kærustuna. Svo mikið að hann og kona hans ákváðu að taka frí núna í miðjum undirbúningnum fyrir brúðkaup aldarinnar (Viktoría krónprinsessa er að fara að gifta sig. Manni sem pabba mislíkaði líka svo við að hann fékk aldrei að sjást opinberlega með Viktoríu fyrr en hún ákvað að opinbera trúlofun sína). En sem sagt kóngur og drottning tóku sér frí til að koma siglandi til Gautaborgar til að horfa á soninn keppa og til að koma í veg fyrir að "dræsan" næði að vera með prinsinum í næði hér í Gautaborg.
Já greinilega ekki auðvelt að vera kóngabarn hér í Svíþjóð.
En önnur börn fengu að sleppa fram af sér beislinu í dag þó að Carl Philip fengi það ekki. Þau voru að vísu vel 10 árum yngri en hinn 30 ára gamli prins. Þetta voru nýstúdentar frá Lerum menntaskólanum. Þeim var "sleppt út" úr skólanum í dag. Þá er til siðs að nýstúdentar safnast aftan á vörubíla eða kerrur og keyra marga hringi um bæinn með hróp og köll og flaut og gleði. Mikill fjöldi bæjarbúa safnast saman til að samgleðjast og horfa á. Þetta er ansi skemmtilegur siður. Minnir svolítið á dimmisionina hjá okkur. En samt öðruvísi. Foreldrar og ættingjar koma í skólann, gjarnan með stór skilti með mynd af "nýstúdentinum" sínum. Þá er til siðs að hengja eina og eina nelliku (eða annað blóm) í bandi um háls stúdentsins. Sömuleiðis aðrar smágjafir eins og tuskudýr.
Það sem mér fannst merkilegast var samt að þennan dag gerir enginn athugasemd við því að unglingarnir sem eru að útskrifast séu að drekka. Þau standa á vögnunum og drekka áfengi og eru ekkert að hafa fyrir því að fela það. (Þau útskrifast almennt 19 ára hér en ekki 20 ára þar sem menntaskólinn er 3 ár). Ekkert er spurt hver keypti það fyrir þau og ekkert er verið að gera veður yfir opinberri drykkju þeirra.
Það fallegasta sem ég sá í dag var hins vegar hvorki prins, porche eða nýstúdent. Heldur gullfalleg Honda Goldwing GL1000, árgerð 1978. Nýlega uppgerð og glansandi fín.
Annars held ég að það séu meiri líkur á að sjá prinsa hér á götum en konur á mótórhjólum. Þær virðast bara ekki fyrirfinnast.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
2.6.2010 | 19:04
Bongóblíða
Hér er búin að vera bongóblíða frá því að ég kom. Þvílikt notarlegt að vera í rúmlega 20 stiga hita og sól.. Dagarnir fara í notarlega göngutúra og afslappelsi. Í gær var okkur þó boðið í Gautaborgarhjólið sem er útgáfa af London´s eye, bara minna.
Vinur Tommy´s er kvikmyndagerðarmaður og hann er að gera kynningarmynd fyrir Gautaborg. Svo nú er ég orðin kvikmyndastjarna. Kem til með að birtast í yfir 1000 sjónvarpsstöðum víða um heim þar sem ég sýni frábæra leikarahæfileika sem túristi í Gautaborg (þ.e. í hjólinu þeirra). Reyndar hjálpaði það til að útsýnið var gríðarfallegt en það sem vakti mestu athyglina var samt að einhver snillingur var búinn að koma fyrir þessum glæsilega tennisvelli upp á þaki hjá sér. Hver skildi svo þurfa að sækja boltann þegar hann fer út af vellinum??
Annað sem vekur athygli mína er hvað það er mikið um hjólamenn hér í Svíþjóð. Já menn. Hef séð fullt af mönnum (eiginlega kannski svona frekar köllum......) á hjólum hér. Þeir eru talsvert hrifnir af HD. En ég hef samt náð að sjá gríðarfallegan Dukati og eitt BMV.
Það virðist ekki vera nein sérstök krafa um hlífðarfatnað önnur en sú að hlífðarfatnaður skal notaður og allir eiga að vera með hjálm. Nánari skilgreining á hlífðarfatnaði virðist vera á reiki þar sem margir eru bara á gallabuxunum. Ég sá meira að segja einn gamlingjann á fína Yahama Dragstar hjólinu sínu. Hann var á gallabuxum og lakkskóm......
Bloggar | Breytt s.d. kl. 19:15 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
30.5.2010 | 18:58
Jæja...
þá er ég komin til Svíþjóðar.
Dagarnir hafa liðið mjög hratt eftir að farið var af stað á þriðjudaginn.
Ferðin gekk vel og við vorum komin á hótel í Óðinsvéum um fjögurleitið. Veðrið var eins og sæmilegt íslenskt sumarveður nema bara án rigningarinnar. Svona létt ský og tæplega 20°C. Við fórum í smá göngutúr út á göngugötu og svo inn á Froggies..........
Á miðvikudeginum var farið eldsnemma á fætur. Við fórum beint til Tornbjerg Gymnasium. Þar var tekið vel á móti okkur. Síðan var farið að vinna. Klukkan 2 var öll mín athygli komin eitthvert annað en við samræður um hvernig tværfaglig samarbejde ætti að fara fram. (Anna segir að ég hafi athyglisbrest en ég segi að gáfnafar mitt krefjist einhvers með meiri skerpu og tilbreytingu.....)
En ég tók sko vel eftir þegar skólastjórinn sýndi okkur nýbyggingu skólans þar sem verið er að stækka skólann úr rúmlega 500 nemenda skóla upp í 800 - 850. Skólinn sem leggur ekkert sérstaka áherslu á raungreinar fær 14 nýjarraungreinastofur. 14!!!! 4 þeirra eru fyrir efnafræði, 4 fyrir eðlisfræði og svo er bioteknik, biologi, biooptik og hvað þetta allt hét...... Við í Flensborgarskóla fannst flott að fá 4 nýjar raungreinastofur í allt fyrir jafnstóran skóla. Dönum finnst nefnilega vera fjárhagslega hagkvæmt að fjárfesta í skólum til að tryggja góða menntun. Eitthvað sem virðist MJÖG erfitt fyrir íslenska ráðamenn að skilja.
Á fimmtudagskvöldinu var okkur boðið í mat til eins kennarans. (Það eru miklu fleiri kennarar karlkyns í Danmörku en á Íslandi) Hann og kona hans búa í gömlum skóla úti á landi þar sem þau eru að innrétta gallerí og lítinnkonsert sal. Rosalega flott. Gestgjafarnir mjög skemmtileg og það skal viðurkennt að mörgum reyndist erfitt að vakna daginn eftir. Hópurinn var frekar rislágur.
Kaupmannahöfn á laugardeginum. Leitað að bar til að horfa á Eurovision. Fundum einn íslendskan. Stærsti gallinn var að fólk mátti reykja þar inni. Oj bara
En í dag kom ég til Svíþjóðar
Hér ætla ég að vera hjá henni Deisu vinkonu minni. Við ætllum að gera alveg fullt af skemmtilegum hlutum um leið og ég nenni. En fyrst ætla ég að sofa út vel og lengi í fyrramálið......
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
24.5.2010 | 18:10
Sumarleyfið
Ég verð að viðurkenna að það er langt síðan ég hef bloggað. Ekki það að ég hafi ekki haft eitthvað að segja. Síður en svo. Ég hef alltaf nóg að segja. Hef bara gert það annars staðar en hér
En núna er ég að fara í ferðalag og ætla að vera lengi. Þess vegna ákvað ég að fara að blogga hér aftur til að vinir og vandamenn geti fylgst með ævintýrum mínum í útlöndum. Ég er sem sagt að fara á morgun og ætla að vera eins lengi og ég kemst upp með. En ég lofa samt að ég verð komin aftur fyrir jól. Þetta loforð er sérstaklega fyrir þau Óla og Olgu
Og ég lofa líka að vera (mátulega) stillt og fara ekki ein yfir til Marokkó og ekki leigja mér (of) stórt mótorhjól og og og.....
Þeir sem nenna svo bara að lesa alvarlega pistla verða að finna sér eitthvað annað til lestrar. En hinir: Ég vona að þið njótið þess að lesa um sumar í útlöndum. Mér finnst þið vera með mér í för þegar ég veit að þið eruð að lesa skrifin mín.
Sumarkveðjur
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
7.2.2010 | 13:35
Bónusar til bankamanna árið 2013??
Ég ætla í þessu bloggi bara að vekja athygli þeirra sem lesa bloggið mitt á einu.
Best að taka fram strax að ég veit ekki hvort hér er á ferðinni enn ein kjaftasagan eða hvað. Hins vegar er eðlilegt að bæði ég og aðrir þrælar þessa lands fái svör um hvort rétt er haft eftir eða ekki.
Samstarfsmaður minn segist hafa þessa sögu beint eftir einum þingmanni sjálfsstæðismanna. (Ekki að þeir hafi endilega reynst vera sérstaklega sannsögulir hingað til). Þingmaðurinn tjáði honum að það lægi góð ástæða fyrir því að reyna að halda fólki sem lengst í skuldum sínum og forðast að keyra það í gjaldþrot á næstu 3 árum. Ástæðan er einföld. Ekki manngæska. Nei, datt þér það einhvern tíma í hug? Græðgi. Já, hvað annað? Kom nokkuð annað til greina en græðgi?
Ef bankamönnum tekst að halda sem mestu af eignum bankans inni í bankanum þá verður greiddur út hár bónus til viðkomandi bankamanna árið 2013. Prósentulega hár miðað við eignasafn sem er inni.
Og hvað er eignasafn bankans? Jú sjáðu til. Allar skuldirnar sem þeim tókst að bjarga.
Þær eru partur af eignasafni bankans. Og líka öll veðin sem eru í fasteignunum "okkar", heimilinum "okkar". Þetta er allt partur af eignasafni bankans. Og þeim mun lengur sem þeim tekst að forða þér frá gjaldþroti þeim mun meira ert þú búinn að borga. Og hver veit? Kannski hefur íbúðarverð hækkað aftur árið 2013. Og þá má keyra þig í þrot og hirða sem mest af sölu fasteignarinnar.
Þetta er gott plan, ekki satt?
Hélstu kannski að bankinn hefði komið með þetta fallega tilboð um að lækka fasteignaskuld þína niður í 110% af verðmæti fasteignarinnar af gæsku og mannkærleika? Nei. Ég veit. Þér datt það ekki í hug. Enda farinn að átta þig á spillingunni og græðginni.
Þetta er bara til að þú haldir áfram að borga í 2 - 3 ár áfram. Telja þér trú um að þú getir þetta. Jafnvel þó að þú sért í raun tæknilega gjaldþrota þá áttu að borga áfram. Fram í rauðan dauðann.
En frá hverjum kom þetta fallega tilboð um bónus? Frá eigendum bankanna? Þ.e. okkur þjóðinni?
Reyndar er það svo (skv. sögunni) að fyrrverandi ríkisstjórn sjálfstæðismanna og framsóknarmanna vissi af þessu og mómælti þessu allavega ekki (a.m.k. ekki hástöfum því þá myndum við vita þetta),
En tilboðið kom aðallega frá kröfuhöfum sem eru væntanlegir (og í sumum tilfellum orðnir) nýjir eigendur bankanna. Þeir vilja jú fá sem mest fyrir sinn snúð.
Þú? Þú átt bara að halda áfram að borga og vera ánægð/ur með að "halda" eigninni sem þú átt reyndar ekkert í.
En hvað eigum við að gera? Það virðist lítill áhugi á að halda áfram að mótmæla á Austurvelli. Enda skilaði það í sjálfu sér engu til okkar.
Mín tillaga? Förum með þetta beint í mannnréttindadómstólinn. Öll lán sem eru tekin eru tvíhliða samningar. Milli skuldara annars vegar og lánadrottins hins vegar. Lög kveða á um sanngirni á BÁÐA bóga. Það hefur engin sanngirni ríkt í því hvernig lánastofnanir taka á vandamálum okkar.
Sækjum lánastofnanir til saka. Látum þá standa fyrir framan umheiminn og svara fyrir það sem þær eru búnar að gera okkur.
Við eigum að hætta þessum eilífðar undirlægjuhætti. Stöndum upp öll sem eitt og hættum að gegna.
Ef t.d. eitthundrað manns sem eru með sín fasteignalán hjá Íslandsbanka (gamla Glitni, enn eldri Íslandsbanka....) færu saman inn í höfuðstöðvar bankans til að fá leiðréttingu mála sinna hefði það örugglega meiri áhrif heldur en ef bara einn fer í einu. Og aðrir 100 færu inn í Arion (áður Kaupþing, áður KB-Banki, áður eitthvað annað....). Og enn aðrir 100 inn í Landsbanka........ Já og ég sjálf ásamt öðrum 100 inn í íbúðarlánasjóð.
Það væri allavega gaman að prófa. Hverjir vilja vera með?
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (9)
Um bloggið
Dagrún Steinunn Ólafsdóttir
Færsluflokkar
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (21.11.): 0
- Sl. sólarhring:
- Sl. viku: 3
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku: 3
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar