Færsluflokkur: Bloggar

21 ár.

Í dag er ég búin að hafa aðgang að gullmola einum í nákvæmlega 21 ár. Þessi gullmoli er dóttir mín sem er yndisleg stúlka. Hún sem sagt fæddist fyrir 21 ári.

Á svona tímamótum hugsar maður oft tilbaka á liðna tíð. Bæði um  það hvernig dótturinni hefur vegnað á þessum árum og svo hvernig þjóðfélagið og samfélag mannanna hefur breyst. 

 Um stúlkuna er það að segja að hún hefur dafnað með ágætum. Er í dag gullfalleg og vel gefin (þetta er ekki bara venjulegt móðurhjal) sem á að eiga framtíðina fyrir sér.

Á þessum tíma var Kringlan rétt búin að opna og var ekki bjórinn leyfður 1. mars 1988? 

Árið sem hún fæddist  notaðist almenningur ekki við farsíma. 

 Árið sem hún fæddist var fyrsta árið í staðgreiðslu skatta hérlendis. 

Árið sem hún fæddist var líka fyrsta árið þar sem lenging var á fæðingarorlofi. Ef hún hefði fæðst tveimur mánuðum fyrr hefði ég bara fengið 3 mánuði í fæðingarorlof en ekki fjóra. 

Árið sem hún fæddist var atvinnuleysi hér á landi nánast óþekkt. 820 manns voru skráðir atvinnulausir eða um 0,6% af mannafla. (hagstofan.is)

Árið sem hún fæddist var sett upp hér á landi svo kölluð vísitala neysluverð til verðtryggingar.  Vísitalan var við upphaf sett á 100 stig. Desember sama ár var hún komin upp í 110, 7 stig.  Í dag er hún 336,5 stig.  Og hefur aldrei hækkað jafnmikið á einu ári eins og síðastliðið ár. (Sjá upplýsingar á  http://hagstofan.is). 

Árið sem hún fæddist voru bankavextir reyndar töluvert hærri en þeir eru í dag.  

Þegar stúlkan var á öðru ári ákváðum við foreldrar hennar að kaupa saman íbúð.  Við keyptum 4ra herbergja íbúð á góðum stað í Kópavogi.  

Það var ekki auðvelt að kaupa eign. Við áttum ekki rétt á nýjum lánum frá stofnun sem hét þá húsnæðisstofnun ríkisins.  Á þessum tíma þurfti að vera búin að borga í viðurkennda lífeyrissjóði í a.m.k. tvö ár til að eiga rétt á nýju láni. Við máttum hins vegar yfirtaka eldri lán og okkur til happs fundum við þannig eign. 

Hún kostaði 5,7 milljónir.  Áhvílandi á eigninni var rúmlega 3,5 milljónir.  Svo við fengum skammtímalán upp á tæpar 2 milljónir (til tveggja ára) til að brúa bilið.  Það var nefnilega ekkert auðveldara að safna til íbúðarkaupa þá.  Og leigumarkaðurinn ekki auðveldur og reyndar var mjög dýrt að leigja.

Lánið var með breytilegum vöxtum.  Hverjir þeir voru í upphafi man ég ekki.  En ég man hins vegar að um það leyti sem alþingiskosningarnar voru árið 1991 þá höfðu vextir, og verðbólga líka,  farið jafnt og þétt lækkandi m.a. vegna þjóðarsáttarinnar.

Árið 1991 voru sem sagt fyrstu alþingiskosningarnar sem stúlkan lifði.  Þá fóru kosningar þannig að sjálfstæðisflokkurinn fékk 26 þingmenn kjörna. Fulltrúi þeirra var Davíð nokkur Oddsson (þið þekkið manninn.....þessi sem telur sig eiga seðlabankann......talar um "bankann minn").  

Davíð tók sem sagt við stjórnartaumunum árið 1991. Og það var eins og við manninn mælt. Fyrstu mánuðina á eftir hækkuðu vextir jafnt og þétt og náðu því að verða rúmlega tólf prósentustigum hærri áður en tókst að stemma stigum við þessari þróun. 

Það var reyndar ekki Davíð að þakka (þó hann vilji þakka sér það persónulega)að vextir fóru lækkandi heldur félögum innan launþegahreyfinganna sem gerðu allt sem í þeirra valdi stóð til að stemma stigum við þessu. Sem sagt gerðu allt til að láta þetta ekki koma verðbólgunni af stað aftur. 

Og það tókst. Með blóði svita og tárum hins vinnandi fólks.

Við tóku svo sældartímar hjá einkavinafélögunum og öðrum sem áttu fé (eða gátu fengið að láni fé) til að ávaxta. Ríkisbankar voru seldir fyrir gjaf fé til fáeinna útvaldra aðila. Svo máttum við hin kaupa bara smá..... því okkur var ekki ætlað að græða. 

Fyrir okkur hin voru þetta bara venjuleg ár. Nokkrir létu að vísu ginnast yfir gylliboðum bankanna sem bókstaflega ýttu lánsfé að fólki.  

Venjulegt fólk eins og ég gat haldið áfram að böðlast við að koma sér sæmilega fyrir í lífinu.  Ég fylgdist með dótturinni fara gegnum grunnskóla og svo í gegnum framhaldsskóla. 

Við keyptum hlutabréf í gamla búnaðarbankanum út á kennitölurnar okkar (muniði eftir því þegar við fengum náðarsamlegast að kaupa smá hlut í bankanum út á hverja kennitölu?).

Og til að reyna að gera vel við börnin mín tvö gaf ég þeim síðar sitt hvorn helminginn af mínum hluta sem reyndar hafði verið bætt við eftir getu.

Sonur minn fékk allavega nóg til geta lagt út stóran hluta af þeim 10 prósentum af kaupverði eignar sem var krafist að fólk ætti þegar hann keypti sína fyrstu eign.  

Dótturinni áskotnaðist svo að auki smá fé sem var ákveðið að ávaxta á öruggum reikningum til að kosta háskólanám, nú eða til að eiga upp í afborgun á sínu fyrsta húsnæði þegar þar að kæmi.  

Til að þurfa ekki að ganga á þennan sjóð sinn vann hún með skólanum allan þann tíma sem hún var í framhaldsskóla eins og reyndar títt er með unglinga. Hún þurfti að eiga peninga fyrir inneign á gemsann og öðrum slíkum "nauðsynjum".

Svo gerist það þegar hún er loksins komin í háskóla og ætlar að fara að seilast aðeins í spariféð að stór hluti af því hvarf.  Öll hlutabréfin í gamla búnaðarbankanum urðu að engu (í orðsins fyllstu merkingu). Og peningamarkaðs reikningur sem henni hafði verið ráðlegt að opna til að tryggja "örugga og áhættulausa" ávöxtun rýrnaði um rúmlega 25%. 

Það er ekki gæfuleg framtíð sem blasir við stúlkunni á 21. afmælisdeginum. 

Atvinnuleysi komið yfir 10% og enginn veit hvernig þau mál fara.  

Fjármunir heillar kynslóðar gufaðir upp í einhverju stærsta fjárhættuspili sem sögur fara af. 

Verðbólgan sem tókst að berja niður með gífurlegu átaki hinnar vinnandi stéttar er komin á fullt blúss aftur. 

Enginn fær lán til að kaupa fasteignir og enginn getur selt fasteignir. 

Bankarnir allir komnir í ríkiseigu aftur.  (Og bíða þess að verða seldir aftur.......minn hluti líka...sem ég fæ kannski að kaupa þá aftur....hver veit)

Nema einn banki...... 

Bankinn hans Davíðs.

Við dóttur mína vil ég segja: Innilegar hamingjuóskir með daginn gullið mitt. Megir þú eiga gæfuríka framtíð. Davíð Oddsson hverfur af sjónarsviðinu fyrr en seinna. Megi þín kynslóð njóta þeirrar gæfu að eigi komi annar slíkur.

 

 

 


Afhverju skyldi það nú vera?

Í frétt á mbl.is segir að engin viðskipti hafi verið með krónuna í dag.  Ég er eiginlega mest hissa að einhver hafi yfirhöfuð viljað hafa viðskipti með krónuna undanfarna .... tja...hvað skal segja?.....uuhhh.....svona rúmlega 5 mánuði eða svo. 

Persónulega er ég þeirrar skoðunar að við íslendingar höfum borgað dýru verði fyrir að hafa hér "okkar eigin" gjaldmiðil.  Sér gjaldmiðill fyrir 300 þúsund manns er gríðarlega dýrt fyrirbæri.  

Þar með er ég ekki að segja að við eigum endilega að taka upp evruna.  

En kannski hefðum við bara átt að halda okkur við dönsku krónuna á sínum tíma. Við hefðum hugsanlega getað fengið að hafa íslenskt útlit á þeim myntpeningum sem hefði verið dreift hingað til landsins (svona eins og evru mynt er ekki alveg eins á t.d. Spáni og í Portúgal) svona aðeins til að sanna fyrir okkur að við værum sjálfstæð. 

En við fengum okkar eigin mynt. Sem nú er vita verðlaus og til að virkilega kóróna það þá eru öll lán sem eru tekin til meira en 5 ára bundin svokallaðri vísitölutryggingu.  Reyndar voru styttri lán einhvern tíma líka bundin vísitölu. Þegar það var afnumið var talað um það sem fyrsta skrefið í þá átt að afnema hér vísitölutryggingar sem verðtryggingar. En næstu skref voru aldrei stigin. 

Það hefði átt að vera sjálfsagður og eðlilegur hlutur að fella niður vísitölutryggingar um leið og verðbólgan fór fyrst undir 5%. 

Eftir það hefði átt að vera með breytilega vexti. Þeir eru nefnilega mjög öflugt neyslustýringartæki svona einir og sér.  Hærri vextir leiða af sér minni neyslu sem leiðir af sér að verð stendur í stað og jafnvel lækkar sem leiðir af sér að fljótlega er hægt að lækka vexti aftur.

Svona gengur þetta hjá þjóðunum í kringum okkur. En ekki hér. Við þurfum alltaf að hafa einhverjar sér reddingar sem í raun gera ekkert annað en að grafa okkur dýpra í skuldafen.


mbl.is Engin viðskipti með krónur
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Þá get ég alveg eins leigt

Til hvers í ósköpunum ætti nokkur maður að vilja kaupa fasteign og borga af henni í 80 ár?

Meðal æviskeið íslendinga er ekki nema rétt þarna í kring.  Er þá ekki bara vænlegra að vera hér með leigumarkað fyrir íbúðarhúsnæði. 

Og eru þessar konur búnar að reikna til enda hvað maður þarf að borga af verðtryggðum lánum til 80 ára? Vita þær ekki af verðtryggingu á lánunum? 

Það er margfalt íbúðarverðið sem maður borgar á 40 árum. Hvað þá sem maður borgar á 80 árum. 

Auk þess munar ekki svo miklu á mánaðarlegri afborgun hvort greiðslutíminn er 25 ár, 40 ár eða 80 ár (ÁTTATÍU ÁR!!!!! Þær hljóta að hafa verið að grínast).

Skjótvirkasta leiðin er að dreifa áhættunni meira á báða aðila málsins þ.e. lánveitanda og lántakenda.  Nú er það þannig að það er lántakandi einn sem verður að taka allt á sig. Jafnvel þó að fjárhagsstaða landsins sé að mestu lánveitendum sjálfum að kenna. 

En kannski var það alltaf plottið? Að eignast allt Ísland?

En þá situr eftir spurningin hvað ætla þeir að gera við það?


mbl.is Vilja að lánstími verði tvöfaldaður
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Alvarlega brenglaðir ungir menn

Ég er kennari í framhaldsskóla og þekki því mikið af ungu fólki. Auk þess á ég tvö börn sem eru rétt rúmlega tvítug og svo tuttugu og sex ára.

Ég er því talsvert innan um ungt fólk og almennt finnst mér það mjög skemmtilegt.  Langflestir unglingar taka ábyrgð á sér og lífi sínu. Já þeim finnst gaman að skemmta sér og gleyma stundum hvað áfengi er varasamur fíknivaldur.

En upp til hópa eru þau skemmtileg, lifandi, jákvæð og heilbrigð.  Og ég nýt þess að vera í kringum þau.

Svo gerist það stundum að á sviðið koma einstaklingar sem eru ekki skemmtilegir eða heilbrigðir heldur alvarlega skemmdir og (já þó mér finnist erfitt að segja það) hreinlega illir.

Núna á aðfararnótt laugardags urðu tvær ungar konur sem ég þekki (báðar um tvítugt) fyrir mjög óskemmtilegri reynslu af hendi svona einstaklinga.

Í öðru tilfellinu gekk 23 ára kærasti í skrokk barnshafandi unnustu sinnar eftir eitthvert rifrildi. Hann braut og bramlaði allt sem hann náði að festa hendur á inni í herbergi hennar og svo þegar það dugði ekki  þá lagði hann hendur á hana. Ef ekki hefði verið fyrir þá heppni að leigusali hennar heyrði djöfulganginn og gat komið kærastanum út er ekki gott að vita hvernig hefði farið.

Í hinu tilfellinu lenti ung kona í því að hafa líklega verið byrlað það sem kallast í dag nauðgunarlyf í drykk sem hún keypti sér á bar.  Unga konan sem er almennt frekar settleg í drykkju man ekkert frá því hún tók fyrsta sopann og þar til hún rankar við sér morguninn eftir uppi í rúmi hjá manni sem hún að vísu kannast við en myndi undir engum venjulegum kringumstæðum geta hugsað sér að sofa hjá.

Eftir því sem hún kemst næst (með því að tala við vitni) þá ætlaði vinafólk hennar að sjá um að koma henni í leigubíl og heim þegar þessi piltur (ómenni) sagðist vera á bíl og lofaði öllu fögru um að koma henni heim til hennar. 

Þar sem vinahópurinn kannast öll við manninn og hafa almennt ekkert séð neitt varhugavert við hann var ákveðið að láta það eftir að hann keyrði hana beint heim. Hún sjálf gat ekkert sagt enda rænulaus að sögn vinkonu hennar sem var að vinna á viðkomandi bar og gat því ekki sjálf fylgst betur með en að reyna að koma vinkonu sinni í það sem hún taldi öruggar hendur.

En hún komst ekki heim fyrr en daginn eftir, eftir að hafa vaknað í ókunnugu rúmi og eftir að hafa læðst út til að finna út hvar hún var og hringja á leigubíl til að sækja sig.

Í báðum þessum tilfellum eru ungir menn að misnota sér það að þeir kannast við eða þekkja þessar ungu stúlkur.  Í fyrra tilfellinu er tiltölulega auðvelt að halda uppi kæru þar sem leigusalinn varð vitni. En þar ræður ótti stúlkunnar því að líklega verður ekkert gert. 

Í síðari tilfellinu verður mjög erfitt að halda uppi kæru því það eru engin vitni af því hvað fór fram eftir að pilturinn tók stúlkuna í bílinn til sín þar til hún vaknar daginn eftir. En hún vill kæra.  Hún hefur vitni að því sem fram fór áður en hún var numin á brott (Jú hún VAR numin á brott). En allir sem lesa blöðin vita að það lendir á henni að þurfa að sanna að eitthvað hafi átt sér stað.  Og niðurlægingin getur orðið alger þegar réttvísin neitar að trúa henn. (Sem er því miður allt of oft sagan).

Þannig að í báðum þessum tilfellum ganga þessir ungu menn frá vettvangi án þess að þurfa að svara til saka.

Almennt er ég á móti því að beita ofbeldi. En þegar ég heyri svona sögur langar mig hreint út til að fara og berja þessa gaura. Eða safna liði vina og ættingja og sjá til þess að þeir komi ekki nálægt stúlkum aftur til þess að berja þær eða svívirða.

Svona sögur eru það lúalegasta sem ég heyri. Þessar eru slæmar en langt því frá að vera þær verstu sem ég hef heyrt. 

Allraljótasta sagan sem ég hef heyrt af íslenskum vettvangi gerðist víst í Þórsmörk. Ég veit því miður ekki hvaða menn voru þar á ferð því ég hef söguna eftir öðrum aðila sem misbauð svo hrottalega þegar félagarnir voru að grobba sig af því hvað þeir höfðu gert. Grobba sig....... og einhverjir þeirra meira að segja giftir eða í sambúð með öðrum konum.  Þvílík illmennska.

Þeir höfðu gengið fram á stúlku sem lá ósjálfbjarga út á víðavangi. Og einn af öðrum fóru þeir upp á hana.....þið vitið til hvers.  Svo þegar þeir komu í bæinn gátu þeir ekki stillt sig um að stæra sig af þessu "afreki" sínu.  Ég vildi óska þess að stúlkan hafi haft klamidíu og smitað þá alla sem einn.....


Er það uppgjöf?

Eitt sem ég hef mikið verið að velta fyrir mér (eins og sést kannski á því sem ég blogga um) er sá vandi sem heimilin (bæði stórar og litlar fjölskyldur) eru komin í. 

Samkvæmt tölum sem ég heyrði er talað um að 50% íslenskra heimila séu í raun tæknilega gjaldþrota. Þ.e. heimilin eru að standa undir skuldum sem eru langt fra yfir eignir. 

Það er vitað að hjá mörgum er það þannig að þó þau haldi áfram að borga allt sitt líf verður engin eign til samt þegar viðkomandi hrekkur uppaf. Allt sem viðkomandi borgar ést upp jafnóðum af verðbólgu. 

Það er verið að ausa fé í botnlausa hýt.  

Hvenær kemur sá tímapunktur að við viljum ekki borga meir?

Er það uppgjöf að hætta að borga?  

Þegar ég segi að ég sé heppin er það vegna þess að húsnæðislán mín voru ekki þriðjungur af kaupverði eignarinnar á sínum tíma.  Þau hafa (þrátt fyrir að hafa vera lág)  hækkað um 2 milljónir eða 30% á tveimur árum. Og íbúðin lækkað um eitthvað. Enginn veit hvað afþví ekkert selst (og ef eitthvað selst ekki telst það í raun verðlaust).  Þannig að ég á kannski helming í dag. 

En ég er heppin. Í kringum mig er fullt af fólki, vinir og ættingjar, sem skuldar mikið meira en ég.  Og í versta dæminu sem ég þekki er íslenskt (verðtryggt með vísitölu dauðans) veðlán á eign orðið meira en 80% hærra en raunmat eignarinnar (sem selst ekki og ætti þannig markaðslega séð að skilgreinast sem verðlaus). 

Hvað á fólk að gera?

Hætta að borga?

Borga minna?

Skila lyklum? 

Er það uppgjöf?

Nei. Í mínum huga heitir það að berjast. Ekki sitja bara og taka þegjandi því sem að manni er rétt. Frekar láta kalla sig "skríl" heldur en að gefast upp og þegja og borga bara og borga þangað til að maður drepst. Eignalaus og allslaus afþví það er verið að vernda "lífeyrinn" sem við komum aldrei til með að njóta.

 


Gömul vísa:)

Mér datt í hug þessi gamla vísa sem afi minn kenndi mér. Hún er viðeigandi í ringulreiðinni sem hefur einkennt okkur undanfarið

Hér kemur vísan:

Týndur fannst en fundinn hvarf

að fundnum týndur leita þarf

en týndist þá og fundinn fer 

að finna þann sem týndur er.

(Minnir að hún hafi verið ort af Káinn. Ef einhver veit betur má hinn sami segja til)


Að duga eða drepast? Eru það einu valkostirnir?

Bloggvinkona mín (kreppan) er með mjög merkilega skoðanakönnun á heimasíðu sinni. Þar eru gefnir þrír möguleikar á því hvað við eigum að gera í stöðunni eins og hún er í dag.

Eigum við að berjast? 

Eigum við að flýja?

Eða eigum við að gefast upp og leyfa uppivöðslunni að halda áfram?

Fyrir mig persónulega hefur þetta þriðja aldrei komið til greina. 

Fyrir sumum hlutum er nauðsynlegt að gefast upp. En maður gefst upp fyrir einhverju sem er æðra manni sjálfum. Maður gefst ekki upp í ótta við að það sem taki við geti ekki verið betra en það sem var. Ef við gerum það, þá komumst við aldrei áfram. Við viljum eitthvað betra og við berjumst fyrir því. Afþví að við trúum og treystum á að það sé til.

Án þessa trausts verðum við alltaf föst í viðjum ótta og bælingar. Þorum ekki að berjast fyrir því sem við teljum vera betra. Þess vegna kemur náttúrulega liður tvö ekki heldur til greina. Að flýja er náttúrulega mjög sterkt óttaviðbragð. Sömuleiðis að fela sig bak við afsakanir eins og "Þetta fer bara allt í sama ruglið". 

Barátta fyrir betra lífi er eitthvað sem við verðum að taka okkur fyrir hendur hvað svo sem kemur út úr því. 

Ég vil treysta öðrum íslendingum til að standa með mér til að ná fram betra Íslandi. Ekki láta gamla fortíðardrauga eyðileggja fyrir okkur framtíðina. Við þurfum það ekki. 

Allt betra en að sitja með hendur í skauti í ótta við að vera rændur síðasta mjólkursopanum. 

Eða eins og Hómer Simpson sagði: "I don´t know Marge. Everytime I try to do something right, somethings goes wrong so it might be better to do nothing."   

Og sjáið bara hvert það kom honum! Í meiri vandræði. En ekki hvað?


Öll húsin sem Dorrit mátti ekki tala um

Kannski á ekki að blogga hér um fréttir sem birtast í öðrum miðlum en Mbl.  En ég ætla samt svona óbeint að leyfa mér það.

Ýmsar skoðanir hafa verið á fréttinni um viðtal við forsetahjónin þar sem þau virtust vera að þrasa um hvað má segja og hvað ekki.  Ég vil ekki gera það að umræðuefni heldur vil ég aðeins velta upp því sem Dorrit sagði um húsin.

Hún sagði að enginn myndi missa húsin sín af því að nú þegar væru hér of mörg hús og hverjir ættu svo sem að búa í öllum þessum húsum.  Skildi hún Dorrit hafa eitthvað til síns máls?

Horfum á nokkrar tölulegar staðreyndir.

Fólksfjöldi í landinu jókst frá 279 þúsundum upp í 313 þúsund á árunum 2000 - 2008. (Sjá heimasíðu hagstofunnar).  Fjölskyldur voru 68.591 árið 2000 en voru orðnar 75.691 árið 2008.  Einstaklingar á landinu (þeir sem búa einir, þeir sem eru í óskráðri sambúð, þeir sem eru orðnir 18 og búa hjá foreldrum og svo einstaklingar með börn eldri en 18 ára) voru 94.169 og af þeim eru rúmlega 16 þúsund á aldrinum 17 - 20 ára þannig að rökrétt er að þeir einstaklingar búi flestir í heimahúsum ennþá.  Þetta er fólkið í landinu í tölum.  Búist er við einhverri fólksfækkun núna þar sem eitthvað af erlendu vinnuafli mun flytja burt þegar vinnan bregst auk þess sem eitthvað af íslenskum fjölskyldum mun líka flýja land vegna atvinnuleysis og fjárhagserfiðleika. 

Og samkvæmt hagstofunni voru hér á landi hvorki meira né minna en 104.805 íbúðir árið 2000 eða um 370 íbúðir á hverja 1000 íbúa (óháð aldri íbúa landsins) og árið 2008 voru íbúðirnar orðnar 125.682 eða 401 á hverja 1000 íbúa.  Það þýðir að það voru um 2,7 íbúar um hverja íbúð árið 2000 en árið 2008 eru 2,5 íbúar um hverja íbúð hér á landi. Íbúðum fjölgar sem sagt hlutfallslega meira en íbúum landsins. 

Var húsnæðisskortur hér árið 2000? Ekki var ég vör við það. Það var a.m.k. ekki neitt svo brjáluð sala í eignum. Ekki miðað við það sem síðar varð, þó hún hafi kannski verið rosalega mikil miðað við það sem af er þessu ári. Og ekki voru margir sem komust hvergi í þak yfir höfuðið (þó svo að einhverjir hafi verið og séu heimilislausir hér á landi a.m.k. svona óopinberlega).

Og ekki verður því haldið fram að íbúðarhúsnæði skorti núna. A.m.k. kvartar orkuveitan yfir ónýttum (og óarðvænum) lögnum í nýjum hverfum sem hafa sprottið upp á höfuðborgarsvæðinu undanfarin ár. Heilu nýju blokkirnar standa auðar þar sem íbúðir í þeim hafa ekki selst. 

Þannig að er nema von að forsetafrúin hafi spurt hver ætti svo sem að taka við íbúðunum og búa í þeim? 

Hitt er svo allt önnur spurning. Hver á að eiga allar þessar eignir þegar upp er staðið? Þegar fjölskyldur geta ekki staðið undir greiðslubirði síhækkandi verðtryggðra lána (sem ég tel reyndar vera mannréttindaglæp) og verða að láta eignina á nauðungasölu, hverjir koma þá til með að geta tekið við eignunum? Og þurfa þeir sem áttu eignirnar að standa eftir með háar eftirstöðvar lána langt umfram það sem veðsett var til tryggingar á láninu? Því það er ljóst að með lækkandi fasteignaverði standa eignirnar ekki lengur undir lánunum. 

Þetta eru spurningar sem okkur vantar svar við strax.

 

 


Fer ekki fet!!

Einhvern veginn kom það mér ekki á óvart að Davíð Oddsson skildi ekki vilja víkja úr stjórn Seðlabankans.  Þessi aumingja maður virðist svo gjörsamlega ekki búa í sama heimi og flest allir aðrir íslendingar.  

Eftir því sem hann skilur hlutina best sjálfur hefur allt gott sem íslendingar hafa fengið á undanförnum áratugum komið frá honum og úr hans smiðju.    Hann gerði ekkert rangt.

Ég ætla ekki að telja upp allt það sem við gátum fundið störfum hans til foráttu þar sem við sátum saman hópur í vinnunni og flissuðum yfir bréfinu sem hann sendi.  Enda vorum við svo sem ekki alveg sammála um það öll hvað væri beint hans sök og hvað ekki.

En eitt vorum við sammála um.  Hann hagar sér enn eins og alltaf eins og óþekkur krakki sem fer í ham þegar hann fær ekki það sem hann vill eða finnst aðrir en hann vera ósanngjarnir.  Hann hefur  alltaf frá 1. degi sínum sem stjórnandi Reykjavíkurborgar og fram á daginn í dag verið svo sannfærður um að hann eigi að fá að hafa hlutina eins og hann vill og allt annað er bara frekja og skrílsháttur. Hann veit jú best og okkur skrílnum er hollast bara að þegja

 


Margur heldur mig sig.

Sjálfstæðismenn virðast almennt vera í smá tilvistarkreppu þessa dagana.

Þannig talar Kjartan Gunnarsson til dæmis um pólitískar ofsóknir nýrrar ríkisstjórnar gagnvart einstaklingum sem eru ekk í réttum flokki. Er þetta ekki það sama og sjálfstæðisflokkur og framsóknarflokkur eru búnir að stunda hér á landi í mörg ár? 18 ár ef ég man rétt.

Ef losnað hefur staða eða verið losað um stöðu í hinum opinbera geira þar sem pólitískar ráðningar eiga sér stað hefur klíku - og - flokkaráðning átt sér stað.

Eða er t.d. einhver flokksbundinn vinstri grænn eða samfylkingarmaður sem hefur setið í stjórn seðlabankans í valdatíð sjálfstæðisflokks?

Sjálfstæðismenn. Sættið ykkur við að þið eruð ekki í ríkisstjórn í augnablikinu. Og ef ykkur mislíkar hegðun núverandi stjórnar skuluð þið læra af því og EKKI gera slíkt hið sama ef þið komist aftur á valdastóla. 

Einhverra hluta vegna er ég samt hrædd um að þið gleymið því um leið og þið fáið afhenta stjórnartaumana aftur. 

Þess vegna vona ég að það líði a.m.k. tvö kjörtímabil án ykkar í stjórn. 


mbl.is Pólitískar hreinsanir og ofsóknir
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða

Um bloggið

Dagrún Steinunn Ólafsdóttir

Höfundur

Dagrún Steinunn Ólafsdóttir
Dagrún Steinunn Ólafsdóttir
Er heppin kona með góða lífsreynslu sem gerir mig vonandi stöðugt að betri og betri manneskju. Er framhaldsskóla kennari og kenni stærðfræði. Hef ákveðnar skoðanir á (næstum) öllu og þörfin til að tjá þær hvetur mig til skrifta hér á þessu bloggi :)
Nóv. 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30

Nýjustu myndir

  • ...p6130376
  • lítið líf

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (21.11.): 0
  • Sl. sólarhring:
  • Sl. viku: 3
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 3
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband