20.3.2009 | 12:34
Hverjir verða betur settir með þessa lausn?
Enn er verið að tala um 20% afskriftir á skuldum heimilanna.
Fallegt og göfugt í sjálfu sér að vilja létta hjá okkur skuldabirðinni.
Hins vegar finnst mér alfarið vanta í þessa hugmynd hvernig viðkomandi aðilar (Sigmundur Davíð, Tryggvi Þór og fleiri) ætla sér annars vegar að standa undir kostnaði vegna þessarar hugmyndar og svo það sem skiptir allra mestu máli. Hvernig ætla þeir að koma í veg fyrir að skuldirnar rjúki strax aftur upp úr öllu valdi og hækka um 20% eða meira vegna verðbólgunnar.
Við skulum ekki gleyma því að í dag er áætluð ársverðbólga rúmlega 17%. Og hún getur auðveldlega hækkað allverulega á örskömmum tíma eins og við þekkjum svo vel og orðið 25% ,35% og jafnvel 50% án þess að við fáum rönd við reist. Og enginn hefur komið með hugmynd um hvernig á að koma böndum á verðbólguna.
Og hvað þá?
Lánin aftur orðin jafnhá og þau voru fyrir afskrift...... Og á þá að lækka þau aftur eða hvað?
Mín hugmynd er sú að við eigum að handfæra gengi ALLRA lána (hvort sem um er að ræða erlend lán eða verðtryggð lán) á þann stað sem þau voru í byrjun september 2008. Síðan verður hreinlega að taka með handstýringu á verðbólgu og skrúfa hana strax niður. 17% verðbólga er náttúrulega gersamlega ólíðanleg fyrir okkur fólkið í landinu. Ekkert okkar getur náð að halda húsnæði okkar undir þvílíkum kringumstæðum nema náttúrulega að verðtrygging verði afnumin sem fyrst.
Og það hlýtur að verða grundvallarkrafa okkar. Afnemum verðtryggingu húsnæðislána sem fyrst. Hún er ómannúðleg og siðlaus. Notum breytilega vexti eins og aðrar þjóðir gera.
Tryggvi Þór svarar grein Gylfa | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Um bloggið
Dagrún Steinunn Ólafsdóttir
Færsluflokkar
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (21.11.): 0
- Sl. sólarhring:
- Sl. viku: 3
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku: 3
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Athugasemdir
Hvernig vegnar Trhyggva, Þór og Herbert í kerfinu hans Tryggva Þórs, veit hann það ekki sjálfur? Þarf einhver annar að útlista það fyrir hann?
Bjorn Jonasson (IP-tala skráð) 20.3.2009 kl. 13:00
Þetta eru greindarleg skrif hjá þér Dagrún, en það er ekki rétt hjá þér að "enginn hafi komið með hugmynd um hvernig á að koma böndum á verðbólguna".
Ég hef í 5 mánuði verið að rita um lausn á þessu máli og halda fyrirlestra. Lausnin er fólgin í upptöku innlends sterks gjaldmiðils, sem festur er hentugum erlendum gjaldmiðili. Þessu fyrirkomulagi er stjórnað af Myntráði.
Ef þú hefur áhuga á málinu, legg ég til að þú lesir útskýringarnar á blogginu mínu. Ef einhverjar spurningar vakna, skaltu ekki hika við að spyrja.
Kveðja.
Loftur Altice Þorsteinsson, 20.3.2009 kl. 13:07
Það er víst búið að gera grein fyrir hvernig á að standa undir kostnaði af þessu. Tryggvi hefur margsagt það og gerir það m.a. í greininni sem þú ert að blogga við. Hugmyndin gerir ráð fyrir að búið sé að afskrifa lánasafnið um 50%. ERGO; valkostirnir sem nýju bankarnir hafa eru a) reyna að innheimta 100% með þeim afleiðingum að 50% eða ISK 3.000 ma tapist í gegnum gjaldþrot skudlara eða b) afskrifa 20% flatt yfir og leysa með því - auk sértækra aðgerða fyrir þá sem enn standa frammi fyrir neikvæðri eiginfjárstöðu - vanda stærsta og verst setta hópsins, auka kaupmátt þess hóps sem er í meðallagi illa settur sem aftur skapar eftirspurn í hagkerfinu og kemur hjólunum af stað.
Hugmyndinni er ekki ætlað að vera allsherjarlausn. Þ.a.l. fjallar hún ekki um það hvernig koma eigi í veg fyrir verðbólgu næsta ár en hafa ber í huga að verðbólguþrýstingur er horfinn og ekkert annað í kortunum en að hún sé að hverfa. Þar fyrir utan þarf ekki að deila um það að almenningur yrði alltaf betur settur með 20% afskrift af höfuðstól fasteignalána sinna hvort sem verðbólga umfram hækkun fasteignaverðs í framtíðinni verður 10% eða 1.000%
Fólk verður að fara að gera sér grein fyrir að það er ekki hægt að finna einhverja eina allsherjarlausn sem leysir allan vanda allra. Allir kostir sem við höfum í stöðunni eru slæmir. Verkefni næstu missera er að finna og framkvæma "skástu" lausnina en því miður virðist mannsheilinn illa ráða við val á kostum þegar þeir eru allir slæmir. Tilhneigingin er því miður að gera ekki neitt og vona að á fjörur okkar reki einhver töfralausn. Enn verra er að sjá hvernig pólitíkin virkar í þessu mengi. Sitjandi vinstri stjórn getur ekki með nokkru móti fengið sig til að taka undir þessa eða aðrar góðar tillögur einfaldlega vegna þess að hugmyndin kom ekki frá þeim.
Ég skora á þig að lesa aftur það sem Tryggvi hefur lagt til. Tillaga hans einfaldlega gengur upp í teoríunni. Ég hef enn ekki heyrt það hrakið með málefnalegum hætti.
Borat (IP-tala skráð) 20.3.2009 kl. 13:46
Skoðaðu líka þær lausnir sem Íslandsbanki kom fram með! Að greiðsluseðlar 1. júní sl., verði notaðir þar til annað verði ákveðið. Það skapar svigrúm og gefur fleirum kost á að standa í skilum, og síðan verði einstaklingsbundið hvernig gengið verði frá málum hvers og eins. ÞEGAR einhver botn fæst í Ísland!
Björn Finnbogason, 20.3.2009 kl. 14:10
Ég þakka allar athugasemdirnar.
Loftur, þegar ég tala um að enginn hafi komið með lausn á ég meira við enginn af ráðamönnum þjóðarinnar.
Borat verðbólguþrýstingur er kannski ekki mikill eins og er en verðbólga mælist hér enn yfir 17% og það hækkar lánin.
Ef einhver gæti tryggt að verðbólga færi ekki á skrið aftur væri ég mjög hamingjusöm með 20% niðurfellingu á lánunum mínum. (Þau færu aftur á þann stað sem þau voru ári eftir að ég keypti sem að vísu var töluverð hækkun frá því ég keypti). Eins yrði ég bara mjög sæl með þetta ef ég óttaðist ekki að þetta kæmi aftan að okkur síðar.
Ég er hrædd um að bankar sjái ekki fasteignir sem lélegar veðbindingar. Þarna eru áreiðanleg veð bak við lánin. Ekki loforð um væntanlegan hagnað heldur fastar eignir og svoleiðis veð eru almennt ekki þau veð sem eru afskrifuð.
Þannig að eftir stendur spurningin Hver kemur til með að borga brúsann? Bankinn? Haha dream on!! Ef bankinn á einhvern séns á að láta okkur borga þá verður það þannig á einn eða annan hátt.
Þess vegna þarf stjórnvalds-ákvarðanir. Mín skoðun er sú að lang farsælasta leiðin sé að festa með valdi (lagavaldi) stöðu allra húsnæðislána miðað við hvernig þau stóðu á einhverjum tímapunkti fyrir hrun. (Það myndi þýða verulega varanlega lækkun á lánunum án þess að höfuðstóll þeirra breyttist, sem þýðir að banki þarf ekki að afskrifa af höfuðstóli heldur bara af væntanlegum hagnaði)). Síðan er það gríðarlegt réttindamál fyrir heimilin að fella niður verðtryggingu á húsnæðislánum.
Dagrún Steinunn Ólafsdóttir, 20.3.2009 kl. 14:46
Er í alvöru búið að afskrifa akkúrat ÞESSAR skuldir í bönkunum? Er það staðfest? Ef svo er þá er náttúrulega bara sjálfsagt mál að ríkisstjórnin handfæri lánin okkar aftur eins og þau voru fyrir um ári síðan.
Og svo að sjálfsögðu afnemi verðtryggingu á lánum til húsnæðiskaupa.
Dagrún Steinunn Ólafsdóttir, 20.3.2009 kl. 15:05
Tillaga þín myndi kosta jafn mikið. Þú ert hér að leggja til útfærslubreytingu að sama markmiði. Þetta skilst auðveldlega með því að setja sig í spor fjármagnseigandans.
Ertu að segja að þú myndir afþakka 20% afskrift af lánum þínum ef ekki verður búið að sýna þér að ekki verði hér há verðbólga? Af hverju? Ef við segjum að þú skudlir 10 milljónir á færðu afslátt sem nemur 2 milljónum. Ef við gefum okkur svo bara 20% verðbólgu þá hækkar 8 milljón króna lánið upp í kr. 9,6 milljónir en 10 milljón króna lán upp í 12 milljónir. Ég fæ ekki séð annað en að þú verðir alltaf betur sett með 20% niðurfærslu.
Spurningin um hver borgi brúsann stendur ekki eftir og hefur aldrei gert enda myndar hún grunninn að þessari tilllögu. Staðreyndin er sú að skv. skýrlu Seðlabankans eru 42% heimil yfirveðsett. Það þýðir að þó húsið sem myndar veðið á bakvið lánið sé ennþá til staðar þá fæst minna fyrir það en sem nemur láninu. Ímyndaðu þér bara áfram skuldina fyrir ofan, þ.e. 10 milljóna kr. lán sem á sínum tíma var 90 eða 100% af virði eignarinnar en nú er markaðsvirði hennar orðið 8 milljónir. Það þýðir ósköp einfaldlega að ef eigandinn (þú) hættir að borga þá fær bankinn 8 milljónir til baka af 10 milljóna kr. láninu þínu. Það er engum blöðum um þetta að fletta. Nýju bankarnir sjá fasteignaveðin ekki sem betri veð en svo að þeir borga bara 50% af virði lánasafnsins við yfirfærslu úr gömlu bönkunum. Um þetta er heldur engum blöðum að fletta. Veðin eru allt annað en áreiðanleg í dag og þau hafa þegar verið afskrifuð um helming. Þetta getur þú séð í fyrri færslu minni og tillögum Tryggva Þórs - svart á hvítu.
Það hefur því endanlega verið hrakið sem þú segir að ofan að áreiðanleg veð séu að baki lánasafninu. Eða getur þú sagt mér annað? Að auki vil ég svo benda þér á að framkomnar verðbætur hafa bæst við höfuðstól lánanna þannig að tillaga þín er svo sannarlega til lækkunar á höfuðstóli en ekki bara væntanlegum hagnaði.
Borat (IP-tala skráð) 20.3.2009 kl. 15:12
Til frekari glöggvinar lími ég hér inn texta úr fréttinni sem þú ert að blogga við:
"Því miður verður það ekki vitað fyrr en 15. apríl þegar ráðgjafafyrirtækið Oliver Wyman hefur lokið vinnu sinn hve miklar afskriftirnar verða. Heyrst hefur þó að afskriftirnar verði hugsanlega 50%. Jafnframt hafa Oliver Wyman sagt að lánasafnið sé eitt það lélegasta sem þeir hafa nokkru sinni séð. Ef afskriftin er 50% þá verða um 6000 milljarðar að nafnverði bókaðir á reikningum nýju bankanna á 3000 milljarða."
Málið er dautt. Virðisrýrnunin er þegar komin fram. Það getur enginn stjórnmálamaður í öllum heiminum breytt því.
Borat (IP-tala skráð) 20.3.2009 kl. 15:16
Þar sem það vill svo til að ég lagði niðurfærsluleiðina fyrst til í lok september og reglulega síðan, þá skal ég upplýsa þig um það hvernig á að fjármagna hana. Svona á að fara að þessu Lestu þessa færslu og skjölin sem fylgja henni ogskilur þú hana betur. Ég reiknaði með að Glitnir, Kaupþing og Landsbankinn myndu afskrifa 2.800 milljarða, en ég sé að Tryggvi reiknar með 3.000 milljörðum.
Ef það fer í taugarnar á fólki að bjarga eigi stóreigna- og/eða hátekjufólki, þá er enginn vandi að setja bæði eigna- og tekjuþak. Það er lík litill vandi að setja hámark á niðurfærslu. Það sem ég skil ekki í þessari umræðu er af hverju mótmælti enginn þegar stóreignafólki voru færðar á silfurfati allt að 800 milljarðar, annars vegar þegar allar innistæður í bönkum voru tryggðar upp í topp við setningu neyðarlaganna og hins vegar þegar 200 milljarðar voru greiddir inn í peningasjóði. Getur einhver skýrt það út fyrir mér hvers vegna það var í lagi að bæta sparifjáreigendum tjón sitt vegna falls bankanna, en það er ekki í lagi að bæta húseigendum tjón sitt vegna lækkunar á eigin fé húseigna? Tekið skal fram að eigið fé hefur lækkað meira en nemur hækkun höfuðstóls lána, þar sem húsnæðisverð hefur lækkað mikið síðustu mánuði.
Marinó G. Njálsson, 20.3.2009 kl. 15:19
Það sem hefur farið í taugarnar á mér er að enginn hefur getað fært mér tryggingu fyrir því að ég þurfi ekki að borga brúsann síðar meir....og þá ekki bara minn brúsa heldur annara brúsa líka. Auðvitað myndi ég aldrei aþakka 20% niðurfellingu á láni ef hægt er að sýna fram á að það komi ekki til með að kosta mig neitt. En eg er ekki sannfærð enn um að það kosti mig ekkert, t.d. í formi aukinna skatta, aukningar á verðbólgu eða eitthvað annað. Það er ekkert sem kostar ekki neitt..... því vil ég vita hver bakreikningurinn er.
Dagrún Steinunn Ólafsdóttir, 20.3.2009 kl. 15:26
Nokkrar athugasemdir við málflutning annarra athugasemdarmanna hér að ofan:
1. Björn Finnbogason bendir á lausnir sem Íslandsbanki er byrjaður að kynna. Mikilvægt er að gera sér grein fyrir því að Íslandsbanki er hér að þjófstarta lausn sem unnin var í samráði SFF og yfirvalda, aðrir bankar eru ekki par sáttir við þjófstart þeirra og hafa gert athugasemdir þar að lútandi (afsakið, hef ekki tíma til að finna fréttir því til staðfestingar). Þetta ætti að sjálfsögðu að þagga niður í öllum þeim sem reyna "þeir hafa ekki gert neitt" aðferðina í málflutningi sínum gegn sitjandi ríkisstjórn.
2. Björn S. Lárusson heldur því fram að þegar sé búið að afskrifa "þessar skuldir" í bönkunum og að af því leiði að aðgerðunum fylgi enginn kostnaður. Þetta er ekki rétt það er ekki búið að afskrifa þessar skuldir, þó hugmyndir séu uppi um að 50% afskrift á því lánasafni gömlu bankanna sem flutt var yfir í þá nýju, sé rétt hlutfall byggt á því hversu mikið muni innheimtast af þessu lánasafni.
Ég velti því fyrir mér hvernig hægt sé að koma tilteknum hópi manna í skilning um að það er ekki til neitt sem heitir "kostar ekki neitt af því það er búið að afskrifa". Ég hélt að viðskiptaráðherranum hefði tekist það í morgun, en það er ljóst að svo var ekki miðað við skrif manna hér að ofan. Hvernig er hægt að útskýra fyrir fólki að þó þú sért með 1000 krónur skráðar sem eign í bókhaldi, þá sé eignin bara 500 króna virði ef ljóst er að einungis 500 krónur innheimtast af þessum þúsund. Þess vegna er fáránlegt að ætla að fara að skera niður 20% af þeim 500 sem munu innheimtast og auka þar af leiðandi afskriftarþörfina í 600 og minnka innheimtanlega hlutfallið í 400 krónur.
Er ekki alveg kristaltært að skuldir sem munu afskrifast, munu afskrifast þó svo skuldir annarra verði lækkaðar?
Elfur Logadóttir, 20.3.2009 kl. 15:29
Elfur, nú snýrð þú þessu á haus. Málið er að talan stendur í 500 í bókhaldinu sem eign, 500 sem afskrift og síðan er reynt að rukka 1.000. Þeir sem eru að tala um 20% niðurfærslu vilja sem sagt að bankinn sætti sig við að rukka 800. Með því MINNKAR afskriftarþörfin í 200. Skuldarinn á meiri möguleika á að standa í skilum og bankinn þarf líklegast ekki að afskrifa eins mikið.
Marinó G. Njálsson, 20.3.2009 kl. 16:10
En hvað með lánin öll hjá íbúðalánasjóð og hjá lífeyrissjóðunum? Bankarnir eiga ekkert í þeim? Og hvað með þá hugmynd að íbúðalánasjóður yfirtaki húsnæðislán bankanna? Á hverja kemur niðurfellingin þá? Sem sagt: Endar þetta ekki með að kosta mig jafnmikið eftir sem áður?
Dagrún Steinunn Ólafsdóttir, 21.3.2009 kl. 11:47
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.