21 ár.

Í dag er ég búin að hafa aðgang að gullmola einum í nákvæmlega 21 ár. Þessi gullmoli er dóttir mín sem er yndisleg stúlka. Hún sem sagt fæddist fyrir 21 ári.

Á svona tímamótum hugsar maður oft tilbaka á liðna tíð. Bæði um  það hvernig dótturinni hefur vegnað á þessum árum og svo hvernig þjóðfélagið og samfélag mannanna hefur breyst. 

 Um stúlkuna er það að segja að hún hefur dafnað með ágætum. Er í dag gullfalleg og vel gefin (þetta er ekki bara venjulegt móðurhjal) sem á að eiga framtíðina fyrir sér.

Á þessum tíma var Kringlan rétt búin að opna og var ekki bjórinn leyfður 1. mars 1988? 

Árið sem hún fæddist  notaðist almenningur ekki við farsíma. 

 Árið sem hún fæddist var fyrsta árið í staðgreiðslu skatta hérlendis. 

Árið sem hún fæddist var líka fyrsta árið þar sem lenging var á fæðingarorlofi. Ef hún hefði fæðst tveimur mánuðum fyrr hefði ég bara fengið 3 mánuði í fæðingarorlof en ekki fjóra. 

Árið sem hún fæddist var atvinnuleysi hér á landi nánast óþekkt. 820 manns voru skráðir atvinnulausir eða um 0,6% af mannafla. (hagstofan.is)

Árið sem hún fæddist var sett upp hér á landi svo kölluð vísitala neysluverð til verðtryggingar.  Vísitalan var við upphaf sett á 100 stig. Desember sama ár var hún komin upp í 110, 7 stig.  Í dag er hún 336,5 stig.  Og hefur aldrei hækkað jafnmikið á einu ári eins og síðastliðið ár. (Sjá upplýsingar á  http://hagstofan.is). 

Árið sem hún fæddist voru bankavextir reyndar töluvert hærri en þeir eru í dag.  

Þegar stúlkan var á öðru ári ákváðum við foreldrar hennar að kaupa saman íbúð.  Við keyptum 4ra herbergja íbúð á góðum stað í Kópavogi.  

Það var ekki auðvelt að kaupa eign. Við áttum ekki rétt á nýjum lánum frá stofnun sem hét þá húsnæðisstofnun ríkisins.  Á þessum tíma þurfti að vera búin að borga í viðurkennda lífeyrissjóði í a.m.k. tvö ár til að eiga rétt á nýju láni. Við máttum hins vegar yfirtaka eldri lán og okkur til happs fundum við þannig eign. 

Hún kostaði 5,7 milljónir.  Áhvílandi á eigninni var rúmlega 3,5 milljónir.  Svo við fengum skammtímalán upp á tæpar 2 milljónir (til tveggja ára) til að brúa bilið.  Það var nefnilega ekkert auðveldara að safna til íbúðarkaupa þá.  Og leigumarkaðurinn ekki auðveldur og reyndar var mjög dýrt að leigja.

Lánið var með breytilegum vöxtum.  Hverjir þeir voru í upphafi man ég ekki.  En ég man hins vegar að um það leyti sem alþingiskosningarnar voru árið 1991 þá höfðu vextir, og verðbólga líka,  farið jafnt og þétt lækkandi m.a. vegna þjóðarsáttarinnar.

Árið 1991 voru sem sagt fyrstu alþingiskosningarnar sem stúlkan lifði.  Þá fóru kosningar þannig að sjálfstæðisflokkurinn fékk 26 þingmenn kjörna. Fulltrúi þeirra var Davíð nokkur Oddsson (þið þekkið manninn.....þessi sem telur sig eiga seðlabankann......talar um "bankann minn").  

Davíð tók sem sagt við stjórnartaumunum árið 1991. Og það var eins og við manninn mælt. Fyrstu mánuðina á eftir hækkuðu vextir jafnt og þétt og náðu því að verða rúmlega tólf prósentustigum hærri áður en tókst að stemma stigum við þessari þróun. 

Það var reyndar ekki Davíð að þakka (þó hann vilji þakka sér það persónulega)að vextir fóru lækkandi heldur félögum innan launþegahreyfinganna sem gerðu allt sem í þeirra valdi stóð til að stemma stigum við þessu. Sem sagt gerðu allt til að láta þetta ekki koma verðbólgunni af stað aftur. 

Og það tókst. Með blóði svita og tárum hins vinnandi fólks.

Við tóku svo sældartímar hjá einkavinafélögunum og öðrum sem áttu fé (eða gátu fengið að láni fé) til að ávaxta. Ríkisbankar voru seldir fyrir gjaf fé til fáeinna útvaldra aðila. Svo máttum við hin kaupa bara smá..... því okkur var ekki ætlað að græða. 

Fyrir okkur hin voru þetta bara venjuleg ár. Nokkrir létu að vísu ginnast yfir gylliboðum bankanna sem bókstaflega ýttu lánsfé að fólki.  

Venjulegt fólk eins og ég gat haldið áfram að böðlast við að koma sér sæmilega fyrir í lífinu.  Ég fylgdist með dótturinni fara gegnum grunnskóla og svo í gegnum framhaldsskóla. 

Við keyptum hlutabréf í gamla búnaðarbankanum út á kennitölurnar okkar (muniði eftir því þegar við fengum náðarsamlegast að kaupa smá hlut í bankanum út á hverja kennitölu?).

Og til að reyna að gera vel við börnin mín tvö gaf ég þeim síðar sitt hvorn helminginn af mínum hluta sem reyndar hafði verið bætt við eftir getu.

Sonur minn fékk allavega nóg til geta lagt út stóran hluta af þeim 10 prósentum af kaupverði eignar sem var krafist að fólk ætti þegar hann keypti sína fyrstu eign.  

Dótturinni áskotnaðist svo að auki smá fé sem var ákveðið að ávaxta á öruggum reikningum til að kosta háskólanám, nú eða til að eiga upp í afborgun á sínu fyrsta húsnæði þegar þar að kæmi.  

Til að þurfa ekki að ganga á þennan sjóð sinn vann hún með skólanum allan þann tíma sem hún var í framhaldsskóla eins og reyndar títt er með unglinga. Hún þurfti að eiga peninga fyrir inneign á gemsann og öðrum slíkum "nauðsynjum".

Svo gerist það þegar hún er loksins komin í háskóla og ætlar að fara að seilast aðeins í spariféð að stór hluti af því hvarf.  Öll hlutabréfin í gamla búnaðarbankanum urðu að engu (í orðsins fyllstu merkingu). Og peningamarkaðs reikningur sem henni hafði verið ráðlegt að opna til að tryggja "örugga og áhættulausa" ávöxtun rýrnaði um rúmlega 25%. 

Það er ekki gæfuleg framtíð sem blasir við stúlkunni á 21. afmælisdeginum. 

Atvinnuleysi komið yfir 10% og enginn veit hvernig þau mál fara.  

Fjármunir heillar kynslóðar gufaðir upp í einhverju stærsta fjárhættuspili sem sögur fara af. 

Verðbólgan sem tókst að berja niður með gífurlegu átaki hinnar vinnandi stéttar er komin á fullt blúss aftur. 

Enginn fær lán til að kaupa fasteignir og enginn getur selt fasteignir. 

Bankarnir allir komnir í ríkiseigu aftur.  (Og bíða þess að verða seldir aftur.......minn hluti líka...sem ég fæ kannski að kaupa þá aftur....hver veit)

Nema einn banki...... 

Bankinn hans Davíðs.

Við dóttur mína vil ég segja: Innilegar hamingjuóskir með daginn gullið mitt. Megir þú eiga gæfuríka framtíð. Davíð Oddsson hverfur af sjónarsviðinu fyrr en seinna. Megi þín kynslóð njóta þeirrar gæfu að eigi komi annar slíkur.

 

 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Dagrún Steinunn Ólafsdóttir

Höfundur

Dagrún Steinunn Ólafsdóttir
Dagrún Steinunn Ólafsdóttir
Er heppin kona með góða lífsreynslu sem gerir mig vonandi stöðugt að betri og betri manneskju. Er framhaldsskóla kennari og kenni stærðfræði. Hef ákveðnar skoðanir á (næstum) öllu og þörfin til að tjá þær hvetur mig til skrifta hér á þessu bloggi :)
Maí 2024
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Nýjustu myndir

  • ...p6130376
  • lítið líf

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (20.5.): 1
  • Sl. sólarhring: 7
  • Sl. viku: 23
  • Frá upphafi: 885

Annað

  • Innlit í dag: 1
  • Innlit sl. viku: 23
  • Gestir í dag: 1
  • IP-tölur í dag: 1

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband