Ég er. Núna

Það er bæði gömul viska og ný þessi hugmynd um að lifa í núinu.  Margir spekingar hafa í gegnum aldirnar kennt þessa visku.  Við eigum bara augnablikið núna.  Fortíðin er liðin og framtíðin er ekki komin.  Núið er hin eilífa líðandi stund.  Af nútímamönnum sem kenna þessa speki má nefna Echart Tolle og bók hans "The Power of Now" sem hefur reyndar verið þýdd á íslensku. 

Ekki ætla ég að rekja neitt sérstaklega kenningar hans eða annarra.  Frekar vil ég ræða það hvernig mér gengur að lifa í núinu og hvaða vangaveltur hafa sprottið upp hjá mér í þessu sambandi. 

Byrjum á fortíðinni.  Hún er einmitt bara það. Fortíð. Allt það sem er liðið. Bæði góðir hlutir og slæmir hlutir.  Þar er engu hægt að breyta.  Hins vegar lærum við með hverju skrefið sem við tökum.  Og tökum þennan lærdóm með okkur inn í núið. Og svo þaðan inn í framtíðina svo fremi sem okkur er einhver framtíð búin.  Þegar við veltum fyrir okkur framtíðinni þá notum við einmitt reynslu fortíðarinnar til að búa okkur til mynd af framtíðinni.  

Ýmsir segja að þankagangur okkar um fortíð og framtíð byggi eingöngu á ótta.  Ef fortíð er slæm þá ótta um að framtíð verði ekkert betri. Og ef fortíð er góð þá ótta um að hún versni.  

Það er ekki mitt að ákveða hvort þetta er rétt eða rangt.  Ég þarf hins vegar ekki að vera sammála þessu. 

Persónulega á ég margar skemmtilegar og góðar minningar úr minni fortíð sem ég hef gaman af að rifja upp þó ég geri mér fulla grein fyrir að sambærilegir atburðið geti ekki gerst hjá mér aftur.   Það er síður en svo ósátt eða ótti í þessum minningum. Heldur enginn sársauki. Þær eru gamlar gleðistundir og veita mér gleði aftur þegar ég rifja þær upp. En það að rifja þær upp þýðir alls ekki að ég lifi í fortíðinni. Síður en svo. 

Framtíðin er hins vegar tími sem er ekki kominn.  Hvort ég á framtíð fyrir mér eða ekki hef ég ekki hugmynd um.  Þaðan af síður veit ég hvernig hún verður.  Og verð að viðurkenna að ég velti mér lítið upp úr því.  En ég leyfi mér að vona að ég eigi einhverja framtíð. Og ég leyfi mér að  vona að ég eigi eftir að sjá fyrsta barnabarnið mitt næsta sumar.  (Já og helst fleiri barnabörn þar á eftir).  Ýmislegt sem ég ræð engu um getur hins vegar alveg komið í veg fyrir að þessi von rætist.  Það þýðir samt ekki að ég gangi um og óttist það versta í framtíðinni.  Síður en svo. 

Núna á ég von á barnabarni og nýt þeirrar tilhugsunar í botn. 

Núna er hins vegar núið.  Hver einn hjartsláttur er einmitt sá hjartsláttur sem gerir mig lifandi núna.  Og mér ber að njóta hans. Og þess næsta þegar hann kemur.  Njóta lífsins, njóta líðandi stundar. 

En hvernig stendur á að það er stundum erfitt?  Flóknari pælingar ganga út frá að það sé af því að við leyfum eigingjörnum huga okkar að taka af okkur völdin.  Við erum ekki hugur okkar. Hugur okkar er og á bara að vera eitt af þeim verkfærum eða skynfærum (eða hvað við viljum kalla þetta) sem við höfum hér í lífinu.  Hann reynir hins vegar stundum að yfirtaka allar okkar tilfinningar.  

Kannski er þetta rétt.  

Mín reynsla er að þegar allt er í góðum gangi og ég er sátt þá lifi ég í núinu, hinni eilífu líðandi stund.  Ég er sátt við fortíðina og horfi eingöngu til baka til að upplifa góðar minningar sem frmakalla gleði og framtíðin er þarna einhverstaðar inni í framtíðinni.  Ég þarf ekki að stunda innhverfa íhugun eða slökkva meðvitað á (ofvirkum?) huga mínum til að geta dvalið í núinu.  Það gerist bara sjálfkrafa. Ekkert skiptir í raun máli annað en hin líðandi stund. Hvað ég er að gera þá stundina verður bara partur af því núi.  Þarf ekki að beita hugann neinu afli til að hann sé til friðs. Hann er það bara. 

Það er þegar ég er að erfiða, hvort sem er andlega eða líkamlega, að ég á erfitt með hina líðandi stund.  Þá fer hugurinn að reyna að trufla.  Reyna að vekja hjá mér kvíða fyrir framtíðinni eða biturð yfir einhverju í fortíðinni.  Reyna að vekja hjá mér tilfinningar sem mig langar ekki að lifa í. Eins og sársauka. Eins og biturð. Eins og reiði eða gremju út í mig, út í lífið, út í einhvern eða eitthvað. 

Mín reynsla? Jú sko það er ég sem ræð yfir hugsunum mínum. Svo einfalt er það.

Ég einbeiti mér að því að bægja frá neikvæðum hugmyndum um framtíðina og leyfi svo huganum aðeins að rausa um þessa biturð úr fortíðinni aðallega í þeim tilgangi að geta þá gert þessa hluti upp strax svo þeir verði ekki baggi á mér síðar meir.  Held að fátt sé verra að burðast með en óuppgerða fortíð.  Sá baggi getur verið núinu ansi hreint þungur.  Það veit ég af því ég hef kynnst fólki sem einhverra hluta vegna hefur ekki náð sátt við fortíð sína.  Fólk sem telur að enginn sjái það þó þau reyni að fela risastóra bleika fíla í stofunni sinni. (Sálu sinni.....þið skiljið hvað ég á við).

Ekki það að ég geti unnið úr öllu á nokkrum mínútum.  (Samanber grein mína um ábyrgð).  Það er reyndar mismunandi eftir því afhverju ég er að erfiða hvernig mér gengur að vinna mig út úr tímabilinu.  En hver stund telur.  Og það hjálpar mér mikið að sökkva mér i að gera eitthvað sem fær mig til að gleyma öllu nema núinu.  Og svo með hverjum degi verður aftur auðveldara að lifa bara núna án þess að hafa áhyggjur af framtíð eða vera að velta fyrir sér fortíð.  Auðvitað getur liðið einhver tími áður en ég næ að hemja hugann algerlega. Og auðvitað verð ég líka að gefa honum og meðvitud minni tækifæri á að vinna til fulls á því sem ég er að erfiða með. 

Það er líka þegar ég er að erfiða sem mér finnst gott að stunda innvherfa íhugun. (Eða slökkva á huganum með einhverjum ráðum).  Þá næ ég að hvíla hina meðvituðu mig frá suði hugans. Þá næ ég að fá skýra sýn á hvað ég er og hvað ég vil vera og hvernig ég vil taka á þeim málum sem ég er að erfiða með. 

Ekki það að ég vilji leggja einhver stór framtíðarplön.  Ég er löngu búin að læra að þó ég ákveði að ég vilji ganga í ákveðna átt þá hef ég enga stjórn á framtíðinni. 

Eða eins og segir í Yiddískum málshætti: "Men tracht und Gott lacht". 

Þýðing: Mennirnir skipuleggja og Guð hlær

(Yiddíska er mál sem gyðingar í Evrópu töluðu) 

 

 

 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Sæl Dagrún.

Mér þótti pistill þinn áhugaverður svo ég ákvað að lesa hann í ró og næði. Hann er svo sem ekki að segja mér neina nýja speki, en það er alltaf gott að hafa stjórn á því sem að við hugsum , segjum eða gerum.

Það er bara ekki svo einfallt. Þetta með hugann er gott dæmi um óæskilegar truflanir " fyrirvaralaust".

En þetta var pistill sem vert var að lesa .

Gleðilegt nýtt ár og takk fyrir það gamla.

Þórarinn Þ Gíslason (IP-tala skráð) 31.12.2009 kl. 03:48

2 identicon

Djúpar og góðar pælingar Dagrún og eitthvað sem allir ættu að lesa, framtíðin er svo óráðin og maður á að taka öllu því sem ber, hvort sem það er gott eða slæmt og njóta einmitt þess góða sem við fáum, ekki satt

Anna Soffía (IP-tala skráð) 10.1.2010 kl. 07:42

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Dagrún Steinunn Ólafsdóttir

Höfundur

Dagrún Steinunn Ólafsdóttir
Dagrún Steinunn Ólafsdóttir
Er heppin kona með góða lífsreynslu sem gerir mig vonandi stöðugt að betri og betri manneskju. Er framhaldsskóla kennari og kenni stærðfræði. Hef ákveðnar skoðanir á (næstum) öllu og þörfin til að tjá þær hvetur mig til skrifta hér á þessu bloggi :)
Apríl 2024
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Nýjustu myndir

  • ...p6130376
  • lítið líf

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (19.4.): 1
  • Sl. sólarhring: 1
  • Sl. viku: 24
  • Frá upphafi: 793

Annað

  • Innlit í dag: 1
  • Innlit sl. viku: 24
  • Gestir í dag: 1
  • IP-tölur í dag: 1

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband