Ný notkun á eldra orði......

Ég var eiginlega búin að blogga það sem ég ætlaði mér í dag. En svo lenti ég í svo skemmtilegum umræðum vð kaffiborðið í vinnunni.  Ég vinn með svo gríðarlega skemmtilegu fólki.

Umræðan snerist um kvenleg málefni eða um tíðir og tíðarverki og annað tengt hormónum okkar.  Karlarnir satu í sínu horni og voru að reyna að leysa Icesave deiluna rétt eina ferðina enn.  Við ræddum meðal annars hversu misjafnt þetta leggst nú á okkur kvenfólkið og eins gott að þetta legðist ekki á karlana þar sem þeir væru þá ábyggilega ekki hæfir til þess að bera þessa raun.  

Mér datt í hug að segja þeim frá hugmyndum Echart Tolle um sársaukalíkamann og hvernig hann vildi m.a. meina að við gætum valið að dvelja í sársaukanum.  Hann var einhvern tímann beðinn um að útskýra hvernig stæði þá á þeim verkjum og vanlíðan sem hrjá margar konur bæði með blæðingum og svo í tíðarhvörfum.   

Tolle átti að sjálfsögðu svör við þessu og talaði um að þarna kæmi líka inn s.k. menningarlegur sársaukalíkami.  Að þessi óþægindi kvenna byggðu m.a. á þessum menningarlega grunni. 

Nú er ég að fara mjög grunnt í Tolle og ekki gera honum nægilega góð skil enda var þessu bara svona slegið fram í umræðunni. 

Ekki stóð á viðbrögðum hjá hópnum.  Umræðurnar flugu af stað.

Sumar vildu reyna að útskýra þetta m.a með því að meðan við töldumst enn vera frumstæð var kona talin óhrein á meðan hún hafði á klæðum (svo gríðarlega pent orð). 

Ein sagði frá því að einhvers staðar í Nepal eða þar nálægt væri því þannig háttað að konur færu burt úr aðalþorpinu yfir í annað minna þar sem þær dveldu á meðan og skildu börn og bú eftir hjá körlunum á meðan. Mörgum fannst ástæða til að skoða þennan sið betur.  

Mikið skemmtum við okkur yfir þessari umræðu.

Og best af öllu var þegar við fórum á flug í nýyrðasmíðinni.  

Nú hringjum við ekki inn til að tilkynna forföll vegna blæðinga. 

Nú hringjum við inn til að tilkynna að við séum í menningarsjokkiLoL


...og orðin í dag eru..

Þegar maður er mikið að flækjast um á netinu eða les mikið af bókum rekst maður oft á heilræði, lífsspeki eða aðra gimsteina sem mann langar að deila með öðrum.  Ekki það að öllum finnist þetta endilega vera eitthvað merkileg speki þar sem þetta kemur ekki frá biblíunni eða frá forngrískum spekingum eða zen-speki eða hvað þetta allt heitir.  En það er líka bara allt í lagi. Þeir þurfa þá ekkert að lesa þetta blogg LoL

En þessa málsgrein fann ég í bréfi sem amma var að senda til dótturdóttur sinnar.

Nú skal þér kennt að byrla ástardrykk:

Alls engin lyf eða græðandi jurtir þarf til, engatöfra né seiðkvenna listir, enga forna lífsspeki eða heimspekilegar vangaveltur um hvernig skuli skilgreina ást.

Ef þú vilt vera elskaður, ELSKAÐU þá.

Þetta er svo einföld og yndisleg lífsspeki sem okkar eldri kynslóð kann svo vel að miðla til okkar hinna bara ef við viljum hlusta og læra.  Og þetta er svo auðvelt.  Sleppum gremju og eigingirni. Sleppum djúpum pælingum um hvernig kærleikurinn eigi að vera. Leyfum okkur bara að elska. Og við fáum að njóta ástar á móti. Frá foreldrum, frá maka. frá börnum okkar, frá vinum og síðast en ekki síst frá okkur sjálfum. 

Ég leyfi mér hiklaust að fullyrða (a.m.k. fyrir mína parta) að ekkert er eins nærandi fyrir sálina eins og kærleikurinn.  Hann fyllir okkur jákvæðri orku og gleði.

Og ég þarf engan annan til að segja mér hvernig kærleikur er eða hvort hann er sannur eða ekki.  Ég þekki hann og hef þekkt hann frá upphafi mínu.  Ég er heppin Smile

Njótum dagsins með kærleikann sem leiðarljós

 


Orð dagsins.....

Gefðu fortíð þínni frelsi!!

Frelsaðu hana úr fjötrum hugans og leyfðu henni að fljúga burt. 

Hreinsaðu til í hugskoti þínu og fylltu það á ný me ferskri sýn á lífið og tilveruna. 

Hættu að vera  það sem þú varst og vertu það sem þú ert!!

 

Þessi boðorð blöstu við mér þegar ég settist við eina vinnustöðina þar sem ég vinn.  Mér fannst þau vel viðeigandi og ákvað því að leyfa þeim að setjast að hér á blogginu mínu. Enda mikið til í þessum orðum.  Vð getum ekki endurlifað fortíðina hversu mikið sem okkur kann að langa það.  Og tímanum því betur varið í að njóta þess sem við erum núna. 


Að lifa....

Sem betur fer var mér aldrei lofað því að þetta líf sem ég lifi nú yrði dans á þyrnilausum rósum.

Líf mitt er reyndar dans á rósum en stundum verða þyrnir á veginum. En það er líka allt í lagi. Þeir gera það að verkum að ég læri eitthvað þegar ég verð á vegi þeirra.  Stundum er lærdómurinn ekkert stór eða merkilegur og stundum er verið að kenna mér sama hlutinn oftar en einu sinni (líklega afþví að ég hef hundsað fyrri lærdóma....:/ )

Það sem er skemmtilegast er að þegar ég er búin að reikna með að eitthvað eigi að gerast og svo BÚMM ... allt í einu á það ekki að gerast.  Þá fæ ég tækifæri til að endurskoða lífið og hvernig mig langar að lifa því.  Stundum eru samt sársaukafullir atburðir sem gerast.  Eins og t.d. að eiga von á barnabarni einn daginn til að fá að vita það svo næsta dag að það gengur ekki upp.  

En lífið heldur samt áfram. Og börnin mín sem fengu ekki langþráð barn fá tækifæri til að nýta tímann þar til barn kemur í eitthvað annað eins og t.d. að fara í nám.  Og ég sjálf sem var búin að plana að vera heima þegar langþráð barnabarn kæmi í heiminn fæ í staðinn tækifæri til að fara í langþráð ferðalag á mótorhjólinu mínu til Evrópu nú eða bara að skreppa til Indlands.... 

Eða hver veit?  Kannski get ég bara leyft mér hvoru tveggja... 

Best að taka það fram að ég er ekki alltaf sátt við þessa þyrna sem verða á vegi mínum á þessari lífsins göngu og stundum spyr ég minn æðri mátt til hvers ég þurfi að ganga í gegnum þessa þyrna.  Stundum tekur langan tíma að fá svar en yfirleitt kemur svarið einhvern tíma og ég sé að breytingar eur til þess að ég geti lært eitthvað og það er mitt að uppgötva hvað það er.  Til lengri tíma eru breytingarnar almennt til hins betra þó að ég sjái það ekki strax. 

Lífið býður manni upp á svo ótrúlega mörg skemmtileg ævintýri ef maður er bara tilbúinn að þiggja þau :)


Allt er breytingum háð

Stundum er gaman að horfa til baka og rifja upp hvernig hlutum var háttað fyrir svo sem eins og 30 árum eða svo.

Margt hefur breyst. Sumt finnst manni til hins betra og annað til hins verra. 

Ég man t.d. þegar ég var í framhaldskóla. Þá þótti ekkert annað sjálfsagt en að nemendur sinntu náminu af kostgæfni og væru ekki að vinna með námi.  Helst að þeir ættu þá að vera í einhverjum uppbyggilegum tómstundum eins og tónlistarnámi. Íþróttir áttu ekki að flækjast um of fyrir náminu. 

Núna vinna mjög margir unglingar með náminu. Námið er ekki lengur í fyrsta sæti og ég sem kennari hef t.d. fengið fyrirspurn frá nemanda sem vildi vita hvort hann gæti frestað prófi af því að hann þyrfti að vinna.  Þetta finnst mér vera breyting til hins verra.  

Nemendur sem eru góðir íþróttamenn eiga þess kost að fá námið aðlagað að iðkun íþróttarinnar þannig að þeir geti sinnt hvorutveggja eins og þörf krefur. Þetta finnst mér breyting til hins betra. 

Ég man t.d. þegar ég fór út með vinum mínum að skemmta mér og gleymdi tímanum þá gat mamma ekki með nokkru móti náð í mig í síma. Hún varð bara að bíða þar til ég skilaði mér.  Og ef hún sjálf þurfti að vera fjarri heimilinu var ekki auðvelt fyrir mig eða systkini mín að hringja til að gá hvenær hún kæmi heim eða hvað væri í matinn.

Ég hef hins vegar getað hringt í dóttur mína í hvert sinn sem hún gleymir tímanum. (Er reyndar hætt því núna enda dóttirin farin að búa).   Og dóttir mín hefur alltaf getað náð í mig frá því ég eignaðist fyrsta farsímann árið 1998.  Sonur minn var heppnari að því leiti að farsíminn kom ekki inn á heimilið fyrr en hann var orðinn 16 ára og hann eignaðist ekki eigin síma fyrr en einhverjum árum síðar. 

Kostir þessa nýja undratækis: það er alltaf hægt að ná í mig. 

Gallar þessa sama tækis: það er alltaf hægt að ná í mig.  Nema ég náttúrulega slökkvi á tækinu. Sem ég gleymi of oft að gera.

Þegar ég var unglingur voru engar tölvur.  Núna ætti ég erfitt með að sinna vinnunni ef ég hefði ekki þennan kostagrip.  Hins vegar kemur hún líka stundum í veg fyrir að ég hafi tíma til að sinna vinnunni afþví ég er að nota hana til einhvers annars óþarfa eins og t.d að skrifa þennan pistil. 

Netið (www) var heldur ekki komið. 

Og fólk kynntist hvort öðru á skemmtistöðum landsins.  Holliwood, Klúbburinn, Sigtún, Óðal og hvað þessir staðir hétu. 

Núna kynnist fólk ekkert síður á netinu.  Skemmtistaðakynni þar sem fólk er í mis annarlegu ástandi þykja ekki endilega æskileg lengur. (Ef þau voru það yfirhöfuð einhvern tímann). 

Mikið af daglegum samskiptum fólks fer fram í gegnum netið eða símann.  Mannleg samskipti eru farin að verða rafræn. Svo rafræn að það er varla að maður þekki lengur suma af þessum s.k. vinum þar sem maður hefur ekki séð þá öðru vísi en á mynd í langan tíma. Eða bara heyrt rödd þeirra gegnum símann.

Kostur: Dregur úr einangrun. Galli: Eykur einangrun. 

Ótvíræður galli: Of mikið af ungu fólki eyðir stórum hluta frítíma síns fyrir framan tölvuna í tölvuleikjum í stað þess að sinna hollari áhugamálum eða sinna náminu/starfinu. 

En lífið breytist. Það er óhagganleg staðreynd. Það hefur breyst frá örófi alda.  Einu sinni var maðurinn ekki til sem lífvera og einhverntíma í framtíðinn verður maðurinn ekki til sem lífvera. A.m.k. ekki á þessari jörð.  En kannski í hliðstæðum heimi? Hver veit? 

 


Að tjá sig

Við sátum fjórar vinkonur og vorum að spjalla svona um daginn og veginn eins og gengur og gerist.  Meðal annars sem var í umræðunni var áramótaskaupið og ýmislegt sem þar fór fram. Við hlógum að atriðinu þar sem konan bað um kattartungur og var vísað á kjötborðið.

Út frá þessu skapaðist umræða um orðfæð í íslenskri tungu.  Ýmis orð sem okkur eru töm en börn og unglingar þekkja ekki. Kannski finna þau önnur orð. Kannski nota þau bara eitthvað annað en orð. 

En það sem mér fannst best í umræðunni var að ein vinkonan sagðist hafa bannað dætrum sínum að blóta á erlendu tungumáli.  Þ.e. þær máttu ekki nota orð eins og fokk eða sjitt. 

Hins vegar máttu þær alveg blóta á íslensku.  Þær máttu nota kröftug, kjarnyrt íslensk blótsyrði. 

Stundum tækju þær sig saman og færu alveg með romsu af íslenskum blótsyrðum. Bæði þeim sem þykja hvað hörðust og svo þau sem eru mýkri. 

Þar sem við sátum þarna fórum við að rifja upp slík blótsyrði sem við höfðum heyrt um ævina og skemmtum okkur hið besta við að rifja upp orð eins og bévítans, skrambans, árans og mörg fleiri orð. 

Við ákváðum að það væri svo mikið meira gefandi að blóta á hressilegri íslensku. Eins að við hefðum úr svo miklu fleiri orðum að moða í íslenskunni en bara þessi tvö fokk og sjitt.

Þannig að framvegis ætla ég að blóta á íslensku. 

Icesave er ekkert helvítis fokking fokk heldur helvítis bölvað klúður. 

Og árið í ár verður bara skrambi gott ár.

Megið þið njóta lífsins með ansans ári góða von í hjarta Grin


Lifandi líf

Mannkynið er (sem betur fer) samanset af mjög ólíkum persónum og persónuleikum.  Það hvernig hvernig við horfum á líf okkar og hvernig við lifum því er mjög ólíkt og fer kannski ekki síst eftir því í hvernig þjóðfélagi eða umgerð við lifum.

Samt er þetta líka ólíkt innan þjóðfélaga. Einmitt af því að við erum ólík og höfum okkar eigin viðmið. 

Margir spekingar hafa gefið út (mis)viturlegt efni í bókarfórmi eða öðru formi hvernig best sé að nálgast hið fullkomna líf.  En fullkomið fyrir hvern?  Margt af þessu efni byggir á þeirri hugmynd að viðkomandi einstaklingur nái sátt og frið fyrir sig sjálfan.  Margt af þessu efni byggir á því að fólk lifi innhverfu lífi.  Sem er svo sem bara gott mál.  Sumum hentar að lifa lífinu eingöngu inn á við og finna frið með sjálfum sér. 

En má ekki finna frið líka með því að lifa út á við? Beina kröftum sínum út til annarra?  Finna gleðina í öllu því stóra og smáa sem er að gerast í kring um mann?

Sjálf er ég mjög fyrir að finna gleðina líka út á við. Það er svo gott að finna gleðina koma frá því að vera að fylgjast með einhverju sem er að gerast í kring um mann og ná að beina henni inn á við.  Þannig vex hún betur hjá mér. 

Atburðir þurfa ekki að vera stórir til að maður kætist yfir þeim og njóti þeirra.  Það er til dæmis svo yndislegt að fylgjast með athöfnum lítils kettlings sem kom inn á heimilið í gær. Sú litla er að læra að þekkja nýtt umhverfi og kann því afskaplega illa að vera einhvers staðar ein.  Þá byrjar hún að mjálma og meira að segja athygli hundsins er betri en engin Smile

Sjálf vil ég líka hafa líf í kringum mig.  Fremstan sess þar koma börnin mín tvö.  Svo á ég fjölskyldu þar sem böndin eru trygg og náin. Síðast og ekki síst á ég yndislegan vinahóp.  Góða, trygga og skemmtilega vini.

Allur þessi hópur gerir það að verkum að ég vil fá að vera út á við. Ekki lifa inn á við og grafa mig þar heldur fagna hverju augnabliki sem ég fæ að njóta þeirra samvista sem þessi hópur býður upp á og þær umgerðir sem þar fylgja.  Sem móðir. Sem dóttir. Sem systir. Sem frænka. Sem vinkona. Sem líkamsræktarstundari. Sem kórsöngvari. Sem mótorhjólakona. Sem salsaunnandi. Sem sjálfboðaliði. Sem kennari. Sem nemandi. 

Sem manneskja sem er sátt við öll sín hlutverk.  Sama hvað þessi umgerð heitir sem ég hef utan um þetta. Hún er sterk og góð. Og ég nýt þess að geta lifað lífinu til fulls. Og ég hef alveg pláss og tíma fyrir fleiri hlutverk þar sem ég hef nóg að gefa frá mér ennþá. Og lifi með von um að framtíðin gefi mér fleiri tækifæri. 

Aðeins eitt hlutverk mun ekki henta mér og það er hlutverk einsetumannsins. 

Það má vera að hann sé fullkomlega sáttur í þessu eina hlutverki sínu. En það myndi aldrei duga mér. 

Megið þið njóta nýs árs í sátt við ykkur sjálf og umhverfið.  

 

lítið líf

 


Ég er. Núna

Það er bæði gömul viska og ný þessi hugmynd um að lifa í núinu.  Margir spekingar hafa í gegnum aldirnar kennt þessa visku.  Við eigum bara augnablikið núna.  Fortíðin er liðin og framtíðin er ekki komin.  Núið er hin eilífa líðandi stund.  Af nútímamönnum sem kenna þessa speki má nefna Echart Tolle og bók hans "The Power of Now" sem hefur reyndar verið þýdd á íslensku. 

Ekki ætla ég að rekja neitt sérstaklega kenningar hans eða annarra.  Frekar vil ég ræða það hvernig mér gengur að lifa í núinu og hvaða vangaveltur hafa sprottið upp hjá mér í þessu sambandi. 

Byrjum á fortíðinni.  Hún er einmitt bara það. Fortíð. Allt það sem er liðið. Bæði góðir hlutir og slæmir hlutir.  Þar er engu hægt að breyta.  Hins vegar lærum við með hverju skrefið sem við tökum.  Og tökum þennan lærdóm með okkur inn í núið. Og svo þaðan inn í framtíðina svo fremi sem okkur er einhver framtíð búin.  Þegar við veltum fyrir okkur framtíðinni þá notum við einmitt reynslu fortíðarinnar til að búa okkur til mynd af framtíðinni.  

Ýmsir segja að þankagangur okkar um fortíð og framtíð byggi eingöngu á ótta.  Ef fortíð er slæm þá ótta um að framtíð verði ekkert betri. Og ef fortíð er góð þá ótta um að hún versni.  

Það er ekki mitt að ákveða hvort þetta er rétt eða rangt.  Ég þarf hins vegar ekki að vera sammála þessu. 

Persónulega á ég margar skemmtilegar og góðar minningar úr minni fortíð sem ég hef gaman af að rifja upp þó ég geri mér fulla grein fyrir að sambærilegir atburðið geti ekki gerst hjá mér aftur.   Það er síður en svo ósátt eða ótti í þessum minningum. Heldur enginn sársauki. Þær eru gamlar gleðistundir og veita mér gleði aftur þegar ég rifja þær upp. En það að rifja þær upp þýðir alls ekki að ég lifi í fortíðinni. Síður en svo. 

Framtíðin er hins vegar tími sem er ekki kominn.  Hvort ég á framtíð fyrir mér eða ekki hef ég ekki hugmynd um.  Þaðan af síður veit ég hvernig hún verður.  Og verð að viðurkenna að ég velti mér lítið upp úr því.  En ég leyfi mér að vona að ég eigi einhverja framtíð. Og ég leyfi mér að  vona að ég eigi eftir að sjá fyrsta barnabarnið mitt næsta sumar.  (Já og helst fleiri barnabörn þar á eftir).  Ýmislegt sem ég ræð engu um getur hins vegar alveg komið í veg fyrir að þessi von rætist.  Það þýðir samt ekki að ég gangi um og óttist það versta í framtíðinni.  Síður en svo. 

Núna á ég von á barnabarni og nýt þeirrar tilhugsunar í botn. 

Núna er hins vegar núið.  Hver einn hjartsláttur er einmitt sá hjartsláttur sem gerir mig lifandi núna.  Og mér ber að njóta hans. Og þess næsta þegar hann kemur.  Njóta lífsins, njóta líðandi stundar. 

En hvernig stendur á að það er stundum erfitt?  Flóknari pælingar ganga út frá að það sé af því að við leyfum eigingjörnum huga okkar að taka af okkur völdin.  Við erum ekki hugur okkar. Hugur okkar er og á bara að vera eitt af þeim verkfærum eða skynfærum (eða hvað við viljum kalla þetta) sem við höfum hér í lífinu.  Hann reynir hins vegar stundum að yfirtaka allar okkar tilfinningar.  

Kannski er þetta rétt.  

Mín reynsla er að þegar allt er í góðum gangi og ég er sátt þá lifi ég í núinu, hinni eilífu líðandi stund.  Ég er sátt við fortíðina og horfi eingöngu til baka til að upplifa góðar minningar sem frmakalla gleði og framtíðin er þarna einhverstaðar inni í framtíðinni.  Ég þarf ekki að stunda innhverfa íhugun eða slökkva meðvitað á (ofvirkum?) huga mínum til að geta dvalið í núinu.  Það gerist bara sjálfkrafa. Ekkert skiptir í raun máli annað en hin líðandi stund. Hvað ég er að gera þá stundina verður bara partur af því núi.  Þarf ekki að beita hugann neinu afli til að hann sé til friðs. Hann er það bara. 

Það er þegar ég er að erfiða, hvort sem er andlega eða líkamlega, að ég á erfitt með hina líðandi stund.  Þá fer hugurinn að reyna að trufla.  Reyna að vekja hjá mér kvíða fyrir framtíðinni eða biturð yfir einhverju í fortíðinni.  Reyna að vekja hjá mér tilfinningar sem mig langar ekki að lifa í. Eins og sársauka. Eins og biturð. Eins og reiði eða gremju út í mig, út í lífið, út í einhvern eða eitthvað. 

Mín reynsla? Jú sko það er ég sem ræð yfir hugsunum mínum. Svo einfalt er það.

Ég einbeiti mér að því að bægja frá neikvæðum hugmyndum um framtíðina og leyfi svo huganum aðeins að rausa um þessa biturð úr fortíðinni aðallega í þeim tilgangi að geta þá gert þessa hluti upp strax svo þeir verði ekki baggi á mér síðar meir.  Held að fátt sé verra að burðast með en óuppgerða fortíð.  Sá baggi getur verið núinu ansi hreint þungur.  Það veit ég af því ég hef kynnst fólki sem einhverra hluta vegna hefur ekki náð sátt við fortíð sína.  Fólk sem telur að enginn sjái það þó þau reyni að fela risastóra bleika fíla í stofunni sinni. (Sálu sinni.....þið skiljið hvað ég á við).

Ekki það að ég geti unnið úr öllu á nokkrum mínútum.  (Samanber grein mína um ábyrgð).  Það er reyndar mismunandi eftir því afhverju ég er að erfiða hvernig mér gengur að vinna mig út úr tímabilinu.  En hver stund telur.  Og það hjálpar mér mikið að sökkva mér i að gera eitthvað sem fær mig til að gleyma öllu nema núinu.  Og svo með hverjum degi verður aftur auðveldara að lifa bara núna án þess að hafa áhyggjur af framtíð eða vera að velta fyrir sér fortíð.  Auðvitað getur liðið einhver tími áður en ég næ að hemja hugann algerlega. Og auðvitað verð ég líka að gefa honum og meðvitud minni tækifæri á að vinna til fulls á því sem ég er að erfiða með. 

Það er líka þegar ég er að erfiða sem mér finnst gott að stunda innvherfa íhugun. (Eða slökkva á huganum með einhverjum ráðum).  Þá næ ég að hvíla hina meðvituðu mig frá suði hugans. Þá næ ég að fá skýra sýn á hvað ég er og hvað ég vil vera og hvernig ég vil taka á þeim málum sem ég er að erfiða með. 

Ekki það að ég vilji leggja einhver stór framtíðarplön.  Ég er löngu búin að læra að þó ég ákveði að ég vilji ganga í ákveðna átt þá hef ég enga stjórn á framtíðinni. 

Eða eins og segir í Yiddískum málshætti: "Men tracht und Gott lacht". 

Þýðing: Mennirnir skipuleggja og Guð hlær

(Yiddíska er mál sem gyðingar í Evrópu töluðu) 

 

 

 

 


Ábyrgð

Að bera ábyrgð getur verið vandasamt.  Hvenær eigum við að bera ábyrgð og hvenær ekki? Hvenær berum við ábyrgð á öðru en okkur sjálfum?

Ég veit til dæmis að ég ein ber ábyrgð á því hvað ég hugsa og hvað ég framkvæmi. Ég ber líka ein ábyrgð á þeim tilfinningum sem ég hef og hvernig ég framkvæmi. Og ég vel sjálf hvaða vonir og væntingar vakna hjá mér. 

Hins vegar velti ég því fyrir mér eftir orðræður sem ég átti um daginn hvenær er rétt að varpa frá sér ábyrgð. 

Hafa gjörðið mínar ekki áhrif á aðra?  Ef ég lofa einhverju ber mér þá ekki að standa við það? Eða biðjast fyrirgefningar þegar ég einhverja hluta vegna get ekki staðið við orð mín? 

Ef ég sýni manni að ég sé ástfangin af honum ber ég þá enga ábyrgð á þeim væntingum sem byrja að kvikna hjá honum? 

Ef ég kaupi bíl og fæ að borga eitthvað í byrjun og restina síðar ber ég þá ekki ábyrgð á þeim væntingum seljandans að fá borgað fyrir bílinn? 

Ef kærastinn minn segir við mig "Við fáum seinna" er þá algerlega mín ábyrgð að gera mér vonir um að seinna fáum við?

Á ég rétt á að snúa baki við vinum mínum án skýringa?  Eru væntingar þeirra um vináttu mína og traust bara þeirra vandamál?

Eða hvað?

Á ég bara fullan rétt á að snúa baki í þetta fólk og ætlast til að það beri bara ábyrgð sjálft á þessum væntingum sem þau bjuggu sér til? 

Hvað finnst þér? Er rétt að varpa frá sér fullkomlega ábyrgðinni af fyrri gjörðum sínum og ætlast til að aðrir beri bara sjálfir ábyrgð á þeim væntingum sem orð mín og framkoma vöktu? 

Er ekki hægt að ætla að ég geri mér grein fyrir að orð mín og framkoma geti vakið væntingar hjá öðrum? Og ber mér ekki að leiðrétta það ef ég verð vör við að þær væntingar eru öðruvísi en ég ætlaðist til að þær yrðu?

Þessar pælingar hjá mér eru partur af ferli sem ég er að ganga í gegn um þessa dagana þar sem ég er að velta fyrir mér væntingum, ábyrgð og fyrirgefningu. Ég fann að ferlið til fyrirgefningar er stundum þyrnum stráð og þá vaknar spurningin um hvort hversu langt nær ábyrgð mín á hvaða væntingar vakna hjá þeim sem ég umgengst. 

Ég uppgötvaði reyndar líka að fyrirgefningin kemur í misstórum skömmtum og hvert skref sem ég tek í átt til fullrar fyrirgefningar og sáttar er mér sjálfri fyrir bestu. Ekki sýst þega rég þarf að beina fyrirgefningunni til sjálfrar mín og biðja mig sjálfa að fyrirgefa mér mistök sem ég hef gert gegn um ævina.

Gæfurík jól til þeirra sem þetta lesa. 

 


Stúlknaheimili í Salem

Nú þegar ég er búin að segja ykkur frá merku framtaki í Thorapadi á Indlandi er ekki úr vegi að segja ykkur frá enn merkilegra framtaki sem á sér stað í Salem í Tamil Nadu héraðinu á Indlandi.

Þar eru hjón sem blöskraði hvað var mikið af vegalausum stúlkubörnum í þorpinu. 

Þetta eru annars bara venjuleg hjón sem lifa bara mjög hógværu lífi og tilheyra lægri mililstétt. Sem sagt ekkert of miklir peningar.  Þeim fannst bara samt að þau gætu örugglega fært von inn í framtíð þessara stúlkna. 

Þau tóku sig því til og leigðu stærra húsnæði og opnuðu heimili sitt fyrir 25 stúlkur sem hvergi áttu höfði sínu að halla annars staðar. Þetta eru annars vegar munaðarlausar stúlkur og hins vegar dætur vændiskvenna sem líklega myndu sjálfar enda í vændi ef ekki væri fyrir þessa aðstoð. 

Pælið í því. Fólk sem hefur ekkert of mikið milli handanna svona dags daglega opnar heimili sitt fyrir 25 börn.  Þvílík gjafmildi. Þvílíkt hugrekki. Jafnvel fyrir fólk sem lifir bara fyrir líðandi stundvar þetta mikið átak.  Mikil skuldbinding. Vegna þess að þau eru að gefa 25 stúlkum von um betri framtíð.  Vonargjöf.  Er hægt að gefa stærri gjöf?

Þau eiga ekki mikið fjármagn. En þegar þau voru komin af stað með þetta fengu þau einhvern ríkisstyrk til að standa undir þessu átaki.  Og svo náðu þau sambandi við nokkra í hópi Vina Indlands. 

Hér á landi höfum við ákveðið að þetta sé verðugt verkefni að styðja við. Við höfum því líka leitað að styrktarforeldrum eða bara styrktaraðilum fyrir þessar stúlkur.  Bara 1500 krónur á mánuði dugir ríkulega fyrir mat handa þeim öllum.  Vilt þú vera með í göfugu verkefni? Vilt þú gefa von um bjartari framtíð?  Við getum hjálpað til 

Megið þið njóta lífsins með von í hjarta. 

 


« Fyrri síða | Næsta síða »

Um bloggið

Dagrún Steinunn Ólafsdóttir

Höfundur

Dagrún Steinunn Ólafsdóttir
Dagrún Steinunn Ólafsdóttir
Er heppin kona með góða lífsreynslu sem gerir mig vonandi stöðugt að betri og betri manneskju. Er framhaldsskóla kennari og kenni stærðfræði. Hef ákveðnar skoðanir á (næstum) öllu og þörfin til að tjá þær hvetur mig til skrifta hér á þessu bloggi :)
Apríl 2024
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Nýjustu myndir

  • ...p6130376
  • lítið líf

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (19.4.): 1
  • Sl. sólarhring: 1
  • Sl. viku: 24
  • Frá upphafi: 793

Annað

  • Innlit í dag: 1
  • Innlit sl. viku: 24
  • Gestir í dag: 1
  • IP-tölur í dag: 1

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband